Ungliðasamtök stjórnmálaflokkanna, Stúdentaráð Háskóla Íslands, námsmannasamtök og fleiri samtök ungs fólks, sammæltust um að hafa heimasíður sínar lokaðar í dag milli klukkan 11:00 og 14:00 í mótmælaskyni við það sem sögð er vera óábyrg ritstjórnarstefna DV og ítrekað skeytingarleysi sem einkenni umfjöllun blaðsins um menn og viðkvæm málefni. Á heimasíðunum var aðeins tengill, sem vísaði á undirskriftasöfnun þar sem skorað er á blaðamenn og ritstjóra DV að endurskoða ritstjórnarstefnu sína og sýna ábyrgð og virðingu í umfjöllun um menn og viðkvæm málefni. Jafnframt eru eigendur og útgefendur blaðsins minntir á þá samfélagslegu ábyrgð sem fylgi því að gefa út fjölmiðil.
Nú laust fyrir klukkan 15:00 voru komnar yfir 10.000 undirskriftir á listann en hægt er að nálgast undirskriftarlistann með því að smella hér.
Þau samtök sem að þessum aðgerðum standa eru Deiglan.com, Samband ungra sjálfstæðismanna, Ungir jafnaðarmenn, Stúdentaráð HÍ, , Múrinn.is , Samband ungra framsóknarmanna, Tíkin.is, Ung frjálslynd, Heimdallur, Ung vinstrigræn, Vaka, Röskva og H-listinn.
Viðbót kl. 16:45
Vefurinn Deiglan.com sem hýsir undirskriftarlistann hrundi fyrir stundu en skráningar á listann voru orðnar um 50 á mínútu sem olli því að vefurinn er nú óvirkur. Yfir 13.000 manns höfu skráð sig á listann þegar vefur Deiglunnar gaf undan álaginu.