Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn fékk í haust lambhrút til blóðblöndunar á Bassastöðum. Þegar leið að jólum valdi bóndi hóp föngulegustu ánna saman í kró, en þegar hinn aðfengni kynbótagripur var leiddur í hús og sýndur hinn glæsilegi hópur kom babb í bátinn. Hrússi lét sem sér væru kynbótaáform bónda allsendis óviðkomandi og leit ekki við margfrægum afurðaám Skjaldfannarbúsins, heldur rölti bara um laus við allar holdsins fýsnir og langanir. Leið svo fram þar til Þorláksmessa var að kveldi komin að hrússi sýndi engin merki um þátttöku í kynbótaáætlun Indriða bónda. Þá kvað bóndi þessa vísu yfir hrútnum að skilnaði um leið og hann yfirgaf ærhús sitt vondaufur um framhaldið:
Töltir um með tregasvip
tárum vætist klútur,
Að horfa á þennan góða grip
sem gagnast ei sem hrútur.
En á aðfangadag jóla, þegar Indriði kom til fjárhúss, hafði brugðið til betri tíðar. Dorri hafði séð ljósið og skilið þá miklu ábyrgð sem á honum hvíldi og sinnti nú sínum embættisskyldum af miklum móð svo sem alvöru kynbótagrip hæfði.