Þær gleðifréttir hafa borist af karluglunni Snæfinni sem nú dvelur sér til hressingar í Húsdýragarðinum að hann er allur að braggast. Snæfinnur sem er Strandaugla í ham og fjöður lenti í þeirri ógæfu að fljúga á girðingu við Ós og sat þar fastur, þar til Þórólfur Guðjónsson bjargaði honum, allnokkuð slösuðum á væng. Nýverið var Snæfinni sleppt lausum í stærsta fuglahúsið í Húsdýragarðinum þar sem hann getur æft vængjatökin og einbeitt sér að endurhæfingunni. Nánar má fræðast um æfintýri karluglunnar Snæfinns á vefnum www.mu.is og þar má líka skoða myndband af því er honum er sleppt í fyrsta sinn og þegar klærnar á honum voru snyrtar á dögunum.