Árlegt leikhússport Leikfélags Hólmavíkur fór fram í gærkvöld. Fjögur tveggja manna lið reyndu þar með sér í spunaleik og var dregið í lið á staðnum. Gekk leikurum að venju misjafnlega að skapa söguþráð af fingrum fram og halda sig við þann stíl sem ákveðið var á örskotsstundu að leika í hverju sinni, en bæði áhorfendur og leikarar skemmtu sér hið besta. Liðið Hjónakornin fór að lokum með sigur af hólmi, en það skipuðu hjónin Jón Jónsson og Ester Sigfúsdóttir á Kirkjubóli. Áhorfendur völdu einnig Spunatröll Leikfélagsins og sigraði Jón í þeirri kosningu og tekur við titlinum af Bjarka Þórðarsyni sem sigraði í fyrra.
Þrír dómarar, Áskell Benediktsson á Hnitbjörgum, Ásdís Leifsdóttir og Salbjörg Engilbertsdóttir dæmdu keppnina. Núverandi formaður Leikfélagsins er Jóhanna Ása Einarsdóttir.