22/11/2024

GSM-samband víðar í Hólmavíkurhreppi

Með nýjum sendi sem settur var upp á Bæjum á Snæfjallaströnd nýverið, næst nú GSM-samband víðar í Hólmavíkurhreppi en áður. Í frétt á vefnum www.leid.is kemur fram að í góðu veðri og við góðar aðstæður náist nú samband á stuttum kafla við Margrétarvatn norðarlega á Steingrímsfjarðarheiði og einnig á svæðinu frá Lágadal þar til mitt á milli Arngerðareyrar og Laugabóls. Samkvæmt spjallinu hér á vefnum næst einnig samband á Langadalssströnd við norðanvert Djúp, en ekki hafa borist neinar fregnir um hversu útbreitt það er. Vonandi verða fleiri sendar settir upp á Ströndum sem fyrst, svo samband sé sem víðast á vegunum.

Ef einhver skyldi eiga erindi til Ísafjarðar eða annarra byggða vestur á fjörðum og við sunnanvert Djúp má fræðast nánar um sambandið á leiðinni á vefslóðinni www.leid.is.