Þeir Jón Jónsson og Halldór Logi Friðgeirsson settu nýtt met í tippleik strandir.saudfjarsetur.is á síðustu helgi þegar þeir náðu hvor um sig 9 réttum á getraunaseðli helgarinnar. Kapparnir eru mjög sammála um úrslit þessa helgi, ellefu leikir af þrettán fá sömu meðferð. Það er því ljóst að úrslitin í leikjum Tottenham – Everton og Watford – Leicester munu ráða því hvor fer með sigur af hólmi. Það vekur athygli að Halldór Logi giskar einmitt á það í sinni spá að sigur Everton muni ráða úrslitum í leiknum og hann spáir því einnig að þeir Jón muni ekki mætast í næstu umferð. Jón barmar sér hins vegar yfir því að hafa ekki hlustað á ítarlega umræðu um ensku neðri deildirnar milli stjórnanda leiksins og þekkts Luton-aðdáanda í barferð í Keflavík forðum daga. Umsagnir og spár kappanna má lesa hér:
1. Chelsea – Bolton
Jón: Það er ekki þorandi annað en að veðja á Chelsea á heimavelli þegar maður er í svona einnar raðar samkeppni. Svakalega væri samt gaman ef Guðni Bergs og félagar næðu að hanga á jafntefli. Tákn: 1.
Halldór: Sé ekki að Rússabyltingin verði stöðvuð að sinni. Tákn: 1.
+++
2. Liverpool – Blackburn
Jón: Finnarnir í Liverpool eru gulls ígildi og komu sem betur fer ómeiddir úr landsleikjum síðustu helgar. Þeir tryggja sigurinn. Tákn: 1.
Halldór: Nokkuð auðveldur heimasigur fyrir Liverpool þrátt fyrir að Stevie G sé ekki með. Tákn: 1.
+++
3. WBA – Arsenal
Jón: Það er ótrúlegt annað en að Arsenal taki WBA. Tákn: 2.
Halldór: Nokkuð bókuð þrjú stig fyrir Arsenal. Tákn: 2.
+++
4. Tottenham – Everton
Jón: Tottenham hefur verið í góðum gír, á meðan Everton skorar varla mark – mörgum til mikillar furðu og mér þar á meðal. Það er ekki óhætt að giska á neitt annað en öruggan heimasigur. Tákn: 1.
Halldór: Nú er loksins komið að því að Everton taki Tottenham á White Hart Lane. Jón koksar á þessum! Tákn: 2.
+++
5. Sunderland – Man. Utd.
Jón: Man.Utd. ættu að sigra þetta, þó á útivelli séu. Annars virðast þeir vera óstöðugri núna, en undanfarin ár. Tákn: 2.
Halldór: Set 2 á þennan fyrir Öllu mína. Tákn: 2.
+++
6. Sheff. Utd. – Wolves
Jón: Ætli Sheff.Utd. haldi ekki sigurgöngu sinni áfram þar sem frá var horfið áður en þeir töpuðu fyrir Reading. Ég hef engar taugar til Úlfanna. Tákn: 1.
Halldór: Sheffield heldur sínu striki og vinnur. Tákn: 1.
+++
7. Crewe – Luton
Jón: Það getur tvennt gerst í þessum leik. Annað hvort vinnur Luton þetta létt eða þeir tapa og hrynja síðan niður stigatöfluna. Hvorugt kæmi á óvart. Nú er Luton í þriðja sæti í deildinni á blússandi siglingu, en ég held þeir endi í neðri hluta deildarinnar. Ég held ég þekki bara einn mann sem heldur með Luton. Ég varð vitni að því þegar hann og stjórnandi þessa tippleikjar fóru á kostum heilt kvöld við að rekja feril ýmissa 2., 3. og 4. deildar leikmanna í ensku deildinni á bar í Keflavík. Það var eins og þeir væru að tala um fjölskyldumeðlimi. Verst að ég man ekkert hvað þeir voru að segja. Nennti ekki að hlusta. Tákn: 2.
Halldór: Luton verður ekki í vandræðum með slakt lið Crewe. Tákn: 2.
+++
8. Watford – Leicester
Jón: Watford sigrar nokkuð auðveldlega á heimavelli, þeir eru í 5. sæti deildarinnar og hafa sýnt ýmsa takta, en Leicester er í 19. sæti. Tákn: 1.
Halldór: Markalaust dauðyfli! Tákn: X.
+++
9. Southampton – Hull
Jón: Aldrei nokkurn tíma skal ég spá fótboltafélaginu Hull góðu gengi í nokkrum sköpuðum hlut. Southampton hlýtur að sigra örugglega. Enda á liðið heima í úrvalsdeild og hvergi annars staðar. Tákn. 1.
Halldór: Dýrlingarnir verða ekki í vandræðum með sjóarana frá Hull. Tákn: 1.
+++
10. Preston – QPR
Jón: Fyrsti erfiði leikurinn á seðlinum þessa vikuna. Tákn: 1.
Halldór: Treysti á heimasigur. Tákn: 1.
+++
11. Derby – Stoke
Jón: Annar erfiði leikurinn á seðlinum þessa vikuna. Tákn: 1.
Halldór: Derby klikkar ekki! Tákn: 1.
+++
12. Coventry – C. Palace
Jón: Þriðji erfiði leikurinn á seðlinum þessa vikuna. Tákn: 1.
Halldór: Held mig við heimasigurinn. Tákn: 1.
+++
13. Brighton – Cardiff
Jón: Fjórði erfiði leikurinn á seðlinum þessa vikuna. Tákn 1.
Halldór: Hef enga trú á Walesverjunum! Tákn: 1.
+++
Jón: Þetta virðist mér fremur léttur seðill, þó óvíst sé auðvitað með útkomuna. Ef úrslit verða óvænt verð ég ekki með marga rétta. Það er aldrei hægt að spá með nokkru viti í leiki með Coventry og Stoke. Við Halldór fengum 9 rétta um síðustu helgi – sýndum loksins okkar rétta andlit.
Halldór: Jæja, reikna með því að Everton (hans Kela) verði Jóni að falli – annars er hann óútreiknanlegur kallinn. Er nokkuð viss um að við mætumst ekki aftur í næstu umferð, hef góða tilfinningu fyrir seðlinum!