Eins og mönnum er kunnugt hefur rjúpnaveiði nú verið leyfð að nýju og hefst veiðitímabilið um næstu helgi. Ferðaþjónar hafa orðið varir við töluverðan áhuga skotveiðimanna á að koma á Strandir í rjúpnaveiði, veiðimenn hafa verið að panta gistingu og fyrirspurnir um veiðilendur og veiðileyfi hafa verið margar síðustu daga. Reynt er að vísa mönnum á landeigendur, enda eru öll lönd hér um slóðir eignarlönd þar sem leyfi þarf fyrir veiðunum. Veður hefur verið rysjótt í haust, en nú er að sjá hvernig viðrar á rjúpnaskyttur þegar þær rölta um fjöll og firnindi um helgina.