22/11/2024

Geitur á ferð og flugi

Einn fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is verður alltaf jafn glaður þegar hann sér geitur, en þær eru fáséð sjón við Steingrímsfjörðinn, sjást þar helst í sjónvarpi eða myndabókum. Í Bæjarhreppi búa hins vegar ýmsar skepnur sem eru sjaldséðar annars staðar á Ströndum eins og geitur og kýr. Á dögunum þegar fréttaritari var á ferðinni lágu tvær geitur við veginn skammt frá Hlaðhamri og fylgdust með umferðinni. Fréttaritari smellti þá af þeim þessum myndum til að skemmta sér við að skoða í vetur.

Ástæðan fyrir þessari gleði yfir geitunum má rekja til yngri ára fréttaritara, en í nokkur ár las hann nauðbeygður bókina um Herra Gleyminn á hverju kvöldi fyrir yngri bróðir sinn ásamt nokkrum öðrum bókum. Herra Gleyminn átti þá að bera eftirfarandi skilaboð til Björns bónda frá Láka löggu: "Það er kind á beit sem er sloppin í gegn við veginn." Eftir hrakningasamt ferðalag náði Herra Gleyminn á leiðarenda, en þá voru skilaboðin orðin svohljóðandi: "Það er synd að geit er að kroppa í regni í heyin."

Ljósm. Jón Jónsson