22/11/2024

„Strandahreppur“ fengi ekki krónu

Til að auðvelda sameiningarferli sveitarfélaga á landinu þá ætlar Jöfnunarsjóður að leggja fram 2,3 milljarða króna en það fjármagn er eyrnarmerkt til að veita skuldajöfnunarframlag til þeirra sveitarfélaga sem sameinast. Sem dæmi þá fá Snæfellsbær og Stykkishólmsbær 100 millj. kr. ef þau sameinast. Að sögn Ásdísar Leifsdóttur sveitarstjóra Hólmavíkurhrepps þá var Jöfnunarsjóður fenginn til að reikna út hvað kæmi í hlut Strandahrepps í skuldajöfnunarframlag ef af sameiningu Broddanes- Hólmavíkur- Kaldrananes- og Árneshreppa yrði.

 "Svarið var 0 kr" segir Ásdís. "Þessi sveitarfélög standa bara ekki nógu illa. Það eina sem við kæmum til með að fá væri fyrir undirbúningskostnaðinum og einnig myndum við halda óbreyttu tekjujöfnunarframlagi í þrjú til fjögur ár. Að þeim tíma liðnum myndi það framlag lækka".