Víða á Ströndum verða réttir um komandi helgi. Ritstjórn strandir.saudfjarsetur.is hefur fengið fréttir af því að í Kjósarrétt í Árneshreppi verði réttað bæði í dag og laugardag og hefjast réttarstörf þegar fé hefur verið rekið lokaspölinn, venjulega um kl. 13:30. Í Skarðsrétt í Bjarnarfirði verður réttað á laugardaginn og er fólki velkomið að mæta til að taka þátt í rekstri lokasprettinn um Bjarnarfjarðarháls en fé og fólk er venjulega komið að réttinni um kl. 13:00. Einnig er réttað á óvissum tíma í Skeljavíkurrétt laugardaginn 17. sept og einnig sama dag í Hvalsárrétt í Hrútafirði. Í Staðarrétt í Steingrímsfirði er réttað sunnudaginn 18. sept. kl. 12:00 og Kirkjubólsrétt kl. 14:00 sama dag. Ekki hafa borist fréttir af frekari réttum á Ströndum.