22/11/2024

Hólmavíkurhreppur kaupir jeppa

Hólmavíkurhreppur hefur fest kaup á jeppa sem verður notaður til að aka börnum til og frá skóla í sveitarfélaginu. Bíllinn er af gerðinni Nissan Patrol árgerð 2001 og kostaði 3,1 millj. Samkvæmt útreikningum hreppsnefndar á Hólmavík er mun hagkvæmara fyrir sveitarfélagið að það eigi sjálft skólabíla og á þá séu ráðnir bílstjórar og er skólaakstur því ekki boðinn út, en Jöfnunarsjóður sveitarfélaga greiðir að langmestu leyti kostnað við skólaakstur barna úr dreifbýli.

Þetta er annar tveggja skólabíla sem sveitarfélagið rekur og verður notaður til að aka íbúum hreppsins á Langadalsströnd sem sækja skóla til Hólmavíkur til og frá skóla. Bílstjóri nýja skólabílsins er Þórður Halldórsson.

Hólmavíkurhreppur rekur að auki tvo aðra bíla sem starfsmenn hreppsins nota við sín störf.