24/11/2024

Verkefnisstjóri Markaðsskrifstofu ráðinn

Sigurður Sigurðarson, hefur verið ráðin til starfa sem verkefnisstjóri Markaðsskrifstofu Vestfjarða. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða. Sigurður er markaðsfræðingur frá Norges Markedshögskole og hefur víðtæka reynslu á sviði markaðs-, rekstrar- og fjármála, jafnt af rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu og iðnaði auk þess að hafa starfað sem ráðgjafi. Sigurður hefur einnig komið að gerð sjónvarpsþátta um ferðamál auk útgáfu ferðatímarita, segir í tilkynningunni.

Sigurður kemur nú þegar til starfa og hans fyrsta verkefni er að koma að lokaundirbúningi Vest Norden ferðakaupstefnunnar sem hefst í Kaupmannahöfn í næstu viku. Sigurður mun fyrst um sinn hafa aðsetur á skrifstofu Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða.

Stofnendur Markaðsskrifstofu Vestfjarða vænta mikils af störfum Sigurðar og þeirrar reynslu sem hann hefur yfir að ráða, til að vinna að áframhaldandi uppbyggingu markaðmála ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Að Markaðsskrifstofu Vestfjarða standa sveitarfélög á Vestfjörðum, Fjórðungssamband Vestfirðinga, Ferðamálasamtök Vestfjarða og Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is býður Sigurð velkominn til starfa og væntir góðrar samvinnu Markaðsstofunnar og Strandamanna við margvísleg verkefni.