Þau tíðindi hafa borist fréttavefnum strandir.saudfjarsetur.is að jólasveinninn á Grænlandi svari ekki lengur bréfum frá börnum víðsvegar úr heiminum sem senda honum óskalista fyrir jólin nema með fylgi 80 danskar krónur í póstburðargjald. Það eru um það bil 880 íslenskar krónur.
Yfir 25,000 börn úr víðri veröld skrifa grænlenska jólasveininum bréf með óskalista yfir það sem þau langar í í jólagjöf. Flest þeirra eiga enga von um að finna svarbréf frá honum í póstkassanum fyrir þessi jól, þar sem jólasveinninn hefur einfaldlega ekki lengur efni á að borga sjálfur undir póstburðargjöldin.
Grænlenska heimastjórnin hefur hætt hefðbundnum fjárframlögum til sjálfboðaliðasamtaka sem heita Jólasveinninn á Grænlandi og á vörumerki jólasveinsins á Grænlandi. "Jólasveinninn er núna kominn í þá aðstöðu að verða að finna fjármagn annars staðar í reksturinn," segir Anders Læsøe, sem er formaður sjálfboðaliðasamtakanna. Í samtali við Jyllands-Posten í Danmörku segir Anders að tímarnir hafi breyst og hér eftir verði grænlenski jólasveinninn að samlagast hinu opna hagkerfi peningamarkaðarins. "Jólasveinninn er að ganga í gegnum erfitt tímabil og þarf að færa sig frá opinberum sjóðum og út á öldusjó alþjóðlega peningamarkaðarins."
Af þessari ástæðu hefur grænlenski jólasveinninn ekki svarað jafnmörgum bréfum frá börnum fyrir þessi jól og áður. Börn sem hafa aðgang að tölvupósti og internetinu hafa þó langflest fengið svarpóst frá honum. "Börnin geta farið inn á heimasíðuna okkar og sent jólasveininum jólaóskir þaðan og fengið svar til baka í tölvupósti án þess að borga neitt," segir Anders ennfremur.
Börnin og raunar fullorðna fólkið líka sem vill halda í barnslega gleði sína yfir jólunum hafa þó annan möguleika ef grænlenski jólasveinninn fer endanlega á hausinn, því í Finnlandi er annar vinsæll jólasveinn sem fær fjöldan allan af bréfum fyrir hver jól.
"Pósthúsi jólasveinsins í Finnlandi sem er við norðurheimskautsbaug berast um hálf milljón bréf fyrir jólin. Hann svarar öllum bréfum sem eru vel skreytt eða ef börnin segja örlítið frá þeim sjálfum og fjölskyldum þeirra. Bréfum sem einungis innihalda jólagjafalista er ekki svarað," segir Anne Lind sem er framkvæmdastjóri vetrardeildar finnska ferðamálaráðsins.
Þó eru þeir hnökrar þar á að finnski jólasveinninn getur verið seinn til svars því mörg bréfanna frá honum berast ekki til baka frá honum fyrr en á vordögum, nema að með fylgi 600 íslenskar krónur sem tryggja það að svarbréfið berist örugglega fyrir jólin.
Ekki hafa borist neinar fregnir til strandir.saudfjarsetur.is að jólasveinarnir þrettán uppi á Íslandi hafi lent í svipuðum hremmingum. Kannski er það vegna þess að þeir hafa ekki ennþá heyrt af útrás fyrirtækja og möguleikanum á að auglýsa sig á heimsmarkaðinum. Við skulum heldur ekkert vera að segja þeim frá þessum möguleikum og halda þeim sveinum heima eins lengi og mögulegt er. Það gæti einfaldega ruglað þá í ríminu, sérstaklega Bjúgnakræki, ef hann frétti af gríðarlegum pulsu- og bjúgnamörkuðum suður í henni Evrópu.
Heimasíða grænlenska jólasveinsins
http://www.santa.gl/uk/SantaClaus/
http://www.santa.gl/uk/SantaClaus/
Heimasíða finnska jólasveinsins
http://www.posti.fi/postimerkkikeskus/english/santa/mainoffice2.htm
http://www.posti.fi/postimerkkikeskus/english/santa/mainoffice2.htm
Finnski jólasveinninn svarar óskum barna um víða veröld