14/09/2024

40 kílómetra stytting leiðar er í höfn

Aðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Oft er sagt að góðir hlutir gerist hægt, en stundum gerast góðir hlutir hratt. Ekki er nema ríflega sólarhringur síðan ég skrifaði grein á heimasíðu mína ( www.ekg.is) um vegagerð um Arnkötludal og lýsti kostum hennar. Þessi grein birtist ennfremur hér á hinum góða vef, www.strandir.saudfjarsetur.is. En í gær, þriðjudag, var síðan kynnt sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að leggja fram nægjanlegt fjármagn til þessa þarfa verkefnis. Sturla Böðvarsson samgönguráðherra hafði áður lagt fram tillögu um upphafsfjármögnun þessarar framkvæmdar, enda hefur hann verið ötull talsmaður hennar. Með því svigrúmi sem skapaðist við sölu Símans, reyndist unnt að leggja fram meiri fjármuni til verksins, sem á að duga til þess að verkinu verði að fullu lokið árið 2008. Ljóst er þó að unnt á að vera að skipuleggja verkið þannig að nýta megi veginn mun fyrr og áður en að fullnaðarfrágangi lýkur.

Verkið er líka komið á mjög góðan rekspöl. Fyrir atorku, dugnað og harðfylgi Jónasar Guðmundssonar, sýslumanns í Bolungarvík hjá Leið ehf. er undirbúningur vel á vegi staddur. Ljúka þarf tiltölulega einföldum rannsóknum nú í haust. Gera verður ráð fyrir því að svo verði gert; annað hvort fyrir tilstilli Leiðar ehf. eða með atbeina Vegagerðarinnar. Það er mjög nauðsynlegt að mjög verði flýtt öllum undirbúningi, til þess að verkið geti hafist sem fyrst. Vonandi sjáum við útboð birtast næsta haust, svo nýta megi fjármagnið til framkvæmdarinnar sjálfrar strax á árinu 2007.

Ótrúlega mikil arðsemi

Rökin fyrir vegagerð um Arnkötludal og Gautsdal eru mjög skýr. Þau rakti ég í greininni í gær. Ég benti meðal annars á eftirfarandi: "Arðsemi af vegagerð um Arnkötludal og Gautsdal, er ein sú mesta sem fyrirfinnst á landinu. Það er ekki algengt að svo arðsöm framkvæmd sé á landsbyggðinni. Þess vegna blasir við að þessi vegagerð á að vera á forgangslista framkvæmda á komandi árum. Byggðaleg áhrif framkvæmdarinnar eru mikil, með tengingu Reykhólasveitar, Saurbæjar, Dala og Stranda. Leiðin til Reykjavíkur styttist um rúmlega 40 kílómetra, fyrir íbúa norðanverðra Vestfjarða, Ísafjarðardjúps og Strandasýslu, norðurúr frá Hólmavíkurhreppi. Svo leiðir hún til lægri slysatíðni og minni umferðarþunga."

Athyglisvert er að arðsemin er svo mikil sem raun ber vitni. Sérfræðingar Háskólans á Akureyri sem unnu að arðsemisútreikningum á þessu verki komust að því að hún næmi um 14 til 15 %. Það eru svipaðar tölur og sérfræðingar Línuhönnunar höfðu unnið fyrir Leið ehf. Það er því öllum ljóst að leiðin um Arnkötludal og Gautsdal er mjög ákjósanleg. Það eru því góð tíðindi að fjármögnun verksins er í höfn. 
 
Einar K. Guðfinnsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins og þingmaður Norðvesturkjördæmis
www.ekg.is