22/12/2024

3500 ára gamlar íslenskar tófur finnast á Ströndum

Lengi hefur verið talið nokkuð víst að tófan hafi verið eina spendýrið á Íslandi við landnám, þótt að fyrir þeirri kenningu hafi skort beinar sannanir. Nú hafa hins vegar verið aldursgreindar nokkrar hauskúpur af refum sem fundust árið 2004 í Hvalsárhöfða milli Kollafjarðar og Steingrímsfjarðar á Ströndum með svokallaðri geislakolsaðferð og kom í ljós að beinin eru frá því 1500-2000 árum fyrir Kristsburð eða a.m.k. 3500 ára gömul. Frá rannsókninni er sagt í grein í nýútkomnu hefti af Náttúrufræðingnum og er greinin eftir Pál Hersteinsson, Veronicu Nyström, Jón Hall Jóhannsson, Björk Guðjónsdóttur og Margréti Hallsdóttur.

Beinin fundust árið 2004 eftir að sprengt hafði verið úr klettunum vegna vegagerðar þar sem heitir Rauðaberg í Hvalsárhöfða, milli Grindar og Hvalsárdrangs. Opnaðist þá inn í skúta eða glufu þar sem beinin lágu. Í greininni segir að Pétur Matthíasson frá Húsavík hafi fyrstur veitt þeim eftirtekt, en það voru síðan fuglafræðingarnir Jón Hallur Jóhannsson og Björk Guðjónsdóttir sem tóku þau til rannsóknar eftir ábendingu Guðbrandar Sverrissonar á Bassastöðum sumarið 2005 og fleiri bein fundust svo 2006 í rannsóknarferð Páls Hersteinssonar. Beinin voru stökk og molnuðu við litla snertingu. Þeim var komið í aldursgreiningu við háskólann í Stokkhólmi þar sem einangraður var bandvefur úr hverri hauskúpu, en þær voru alls sjö. Beinin voru ekki öll jafn gömul og lítur helst út fyrir að á nokkur hundruð ára tímabili hafi refirnir leitað inn í hellisskútann til að drepast af náttúrulegum orsökum. 

Það hefur löngum verið talið nokkuð víst að melrakkinn (eða tófan eins og dýrið er yfirleitt kallað nú á dögum) hafi verið á Íslandi áður en landnám hófst og líklega frá síðasta jökulskeiði fyrir 12-13 þúsund árum. Vísbendingar um þetta voru fyrst og fremst hversu sérstök arfgerð íslenska melrakkans er og ólík refum annars staðar. Einnig voru vísbendingar í fornum lagabókum eins og Grágás um að melrakkinn hefði verið útbreiddur þegar land byggðist. Í þriðja lagi voru svo rannsóknir náttúrufræðingsins Guðmundar G. Bárðarsonar sem fann kjálka, tennur og bein úr tófum í skeljalagi við Kollafjarðarnes á Ströndum sem var talið vera 2600-2800 ára gamalt. Þetta var þó ekki talin óyggjandi sönnun, því hugsast gat að refirnir hefðu löngu síðar gert sér greni inn í þetta gamla jarðlag og beinin sjálf voru ekki aldursgreind. 

Refirnir í Hvalsárhöfðanum og rannsóknirnar á þeim eru hins vegar óyggjandi sönnun þess að tófan hafi verið hér á landi fyrir landnám og gefa frekari tækifæri til rannsókna á uppruna íslenska melrakkans. Það er býsna merkilegt að beinin úr melrökkunum skuli nú finnast í Hvalsárhöfðanum, í næsta nágrenni við þau bein sem Guðmundur fann á Kollafjarðarnesi. Refirnir hafa greinilega ráðið ríkjum í Tungusveitinni miklu mun lengur en elstu menn muna.

Ýmsar skemmtilegar vangaveltur og fróðleik um íslenska refinn má finna í greininni, ásamt myndum og frásögn af rannsókninni, í Náttúrufræðingnum (2007, 76. árg., s. 13-21). 

 

Hauskúpurnar í holu sinni áður en þær voru teknar til rannsóknar – ljósm. Jón Jónsson.