Þegar íbúatölur í þéttbýli og dreifbýli á Ströndum eru skoðaðar á vef Hagstofu Íslands stingur íbúaþróun á Drangsnesi sérstaklega í augu, enda er fólksfækkunin þar síðustu árin einsdæmi á landsvísu. Á Drangsnesi bjuggu 100 manns þann 1. desember árið 2001, en samkvæmt tölum Hagstofunnar hafði íbúum þar fækkað í 65 þann 1. des. 2006. Fækkunin á þessum fimm árum er því um 35 einstaklinga og jafngildir því að meira en þriðji hver maður hafi flutt á brott. Fækkunin á stöðum eins og Bíldudal, Bakkafirði og Raufarhöfn sem hafa verið töluvert í umræðunni er töluvert minni.
Strandamenn hafa reyndar áður séð ótrúlega háar prósentutölur hvað varðar fólksfækkun á fáum árum, því ekki eru mörg ár síðan svipað hrun varð í fjölda íbúa í Árneshreppi og enn meiri hlutsfallsleg fækkun varð á fáum árum í Bitru og Kollafirði. Íbúatala á þessum svæðum stendur hins vegar nokkurn veginn í stað núna.
Á Drangsnesi – ljósm. Jón Jónsson