30/10/2024

24. umferð tippleiksins

Það eru þeir Kolbeinn Jósteinsson og Bjarni Ómar Haraldsson sem fá það erfiða hlutverk að hrista af sér þorrablótsdraug síðustu helgar í tippleik strandir.saudfjarsetur.is nú um helgina. Báðir stóðu í ströngu um síðustu helgi, Bjarni spilaði fyrir dansi á þorrablóti á norðausturhorni landsins með hljómsveit sinni Kokkteil, en Kolli bar mat í svanga Strandamenn ásamt fleiri vöskum Riis-liðum. Báðir virðast þeir þó vera klárir í hvað sem er og spárnar þeirra eru tiltölulega ólíkar. Sex leikir skilja kappana að, flestir í neðri deildinni sem oft hefur vafist fyrir spekingum tippleiksins. Spár og umsagnir þeirra Bjarna og Kolla má sjá hérna:

1. Middlesbro – Chelsea

Bjarni: Chelsea fara nú varla að tapa fyrir Middlesbro sem eru rétt við það að vera í fallbaráttunni. Tákn: 2.

Kolli: Middlesbro eru að spila hræðilega og eru að blanda sér í botnbaráttuna á meðan Chelsea eru komnir með aðra höndina á bikarinn og ekkert virðist stoppa þá, þetta verður búið í fyrri hálfleik. 0-4. Tákn: 2.

+++

2. Arsenal – Bolton

Bjarni: Leikmenn Arsenal taka þennan þennan í nefið og eru fullir af hefnigirni eftir tapið gegn Bolton í bikarnum. Stuðningsmenn Arsenal verða ánægðir með aðfarirnir og gleyma sársaukanum um stund. Tákn: 1.

Kolli: Ég held að þetta verður leiðinlegur leikur sem mun enda með jafntefli, 1-1. Tákn: X.

+++

3. Everton – Blackburn

Bjarni: Leikmenn Everton eru í góðum gír og hafa sýnt feikna góða takta undanfarið 4. leikir unnir í röð að mig minnir. Þeir vinna þá blökku á heimavelli þó ekki verði um neinn stórsigur að ræða. Tákn: 1.

Kolli: Blackburn eru á blússandi siglingu þessa dagana eftir sigurinn á Man.Utd. á meðan Everton eru strögglandi í neðri part deildarinnar. Spá = 1-2. Tákn: 2.

+++

4. Aston Villa – Newcastle

Bjarni: Villadrengir eru í feiknastuði og leggja Kastalastrákana sem eiga sér ekki viðreisnar von. Tákn: 1.

Kolli: Newcastle gengur alveg hörmulega þessa dagana og ég held að það verður engin breyting á. Spá = 2-0 fyrir Aston Villa. Tákn: 1.

+++

5. Fulham – WBA

Bjarni: Þetta verður gríðarleg rimma. Veðja á að W.B.A láti í minni pokann. Tákn: X.

Kolli: Okkar maður Heiðar er farinn að skora og  held ég að það sé alveg klassa munur á þessum liðum. Spá = 2-0 + Heiðar skorar. Tákn: 1.

+++

6. Portsmouth – Man. Utd.

Bjarni: Mínir menn njóta vafans, ég treysti þeim nefnilega ekki 100%. Ef Nisti byrjar inn á setur hann þrennu. Tákn: 2.

Kolli: Man.Utd eru sterkir þessa daganna og vilja ekki missa annað sætið til Liverpool á meðan Harry Redknapp er að skíta á upp á bak. Spá = 0-2. Tákn: 2.

+++

7. Plymouth – Sheff. Utd.

Bjarni: Plymouth steinleggja fyrir sterku liði Sheffield þrátt fyrir heimavöllinn. Tákn: 2.

Kolli: Ég veit mjög lítið um 1. deildina á Englandi en ég held að Sheffield sé með betra lið. Tákn: 2.

+++ 

8. Watford – Coventry

Bjarni: Hvernig ætli það sé? Á Elton góðvinur minn og pínaóleikari enn einhvern hlut í Watford? Ég fylgist ekki betur með en svo. Veðja á heimasigur Watford hvort sem hann á liðið eða ekki. Tákn: 1. [Innskot stjórnanda: Elton John var stjórnarformaður Watford til 2002 og á enn stóran hlut í klúbbnum. Hann hélt t.d. tónleika árið 2005 á heimavelli liðsins og gaf því allan ágóðann, 1 milljón punda, í endurbyggingu vallarins].

Kolli: Watford eru með betra lið að mínu mati þannig að ég spái þeim öruggum sigri. Tákn: 1.

+++

9. Derby – Leeds

Bjarni: Erfiðleikar Derby taka ekki enda í þessum leik. Leedsar leika lausum hala og eru ekkert að halda sig til hlés eins og nafnið bendir til (til hlés=Leeds). Þeir hafa 3 stig með sér heim til hlés. Tákn: 2.

Kolli: Leeds með Gylfa Einars farabroddi munu vinna góðan útisigur þessa helgina. Tákn: 2.

+++

10. Sheff. Wed. – C. Palace

Bjarni: Sheffarnir reyna hvað þeir geta og standa sig örugglega vel, en Palace eru bara einfaldlega mun sterkara lið. Tákn: 2.

Kolli: Veit lítið sem ekkert um þennan leik þannig að ég segi bara jafntefli á þetta. Tákn: X.

+++

11. Cardiff – Stoke

Bjarni: Stokarnir íslensku hafa gert eins og ég hef spáð fyrir í síðustu umferðum og staðið sig afar vel. Þeir ná fram enn einu jafnteflinu gegn Cardiff og ég treysti á lukkuna. Tákn: X.

Kolli: Eins mikið og maður hélt með Stoke á sínum tíma þá held að þeir munu tapa þessum leik. Tákn: 1.

+++

12. Hull – Norwich

Bjarni: Öruggasta jafnteflið á seðlinum. Tákn: X.

Kolli: Ég hef mikla tilfinningu fyrir því að Norwich vinni þennan leik nokkuð örugglega. Tákn: 2.

+++

13. Q.P.R.-Millwall

Bjarni: Q.P.R. vinna næstneðsta liðið í 1. deildinni ef allt fer að óskum. Reyndar er maður alltaf hræddur um að botnliðin fari að taka á þegar svo langt er liðið á leiktíðina til að komast úr fallsætum. Allt getur gerst en ég set traust mitt á Q eins og Bond. Tákn: 1.

Kolli: Ég veit ekkert hvernig þessum liðum hefur gengið í vetur þannig að þetta fer jafnt. Tákn: X.