02/05/2024

22. umferð tippleiksins

Tippleikur strandir.saudfjarsetur.is heldur áfram af fullum krafti um helgina. Það eru tónlistarmennirnir Bjarni Ómar Haraldsson og Andri Freyr Arnarsson sem eigast við í tippleiknum núna í þessari umferð. Bjarni er tónlistarkennari á Hólmavík en Andri hefur getið sér gott orð fyrir bassaslátt og söng í rokksveitinni Kingstone. Þeir Andri og Bjarni eru frekar sammála um úrslit helgarinnar en einungis fjórir leikir skilja á milli spánna þeirra. Bikarleikir eru allsráðandi á seðli helgarinnar og því má búast við einhverjum óvæntum úrslitum, en þau fylgja jafnan ensku bikarkeppninni. Stórskemmtilegar spár kappanna má sjá hér fyrir neðan:

1. Everton – Chelsea

Bjarni: Chelsea og bikar. Kannski Eiður skori aftur og tryggi sínum mönnum sigur að þessu sinni. Tákn: 2.

Andri Freyr: Með Eið Smára að drepast úr monti þessa dagana því Ronaldinho valdi hann í draumalið sitt, þá hlýtur hann að spila vel ásamt hinum 5 sem hann valdi. Chelsea töpuðu sínum fyrstu stigum á heimavelli í síðustu umferð og koma því líklega dýrvitlausir til leiks. Það er reyndar stór spurning hvort þeir noti "varaliðið" sitt því þetta er bikarleikur? Everton hins vegar á smá uppleið eftir skelfilega byrjun og unnu t.d. Arsenalbyssurnar í síðasta leik… Tákn: 2.

+++

2. Bolton – Arsenal

Bjarni: Arsenal verða að…….., það er því öruggt að.. Já, Arsenal vinnur. Tákn: 2.

Andri Freyr: Nallarnir vilja líklega vinna bikarinn þar sem þeim mun ekki takast að vinna neitt annað þannig að þeir munu líklega nota sitt sterkasta lið. Bolton hins vegar hafa verið alveg ótrúlega ferskir í vetur og erfitt er að spá um þennan leik. Stórmeistarajafntefli! Tákn: X.

+++

3. Man. City – Wigan

Bjarni: Leikmenn City brugðust mér illilega um síðustu helgi þegar þeir töpuðu fyrir  Bolton. Wigan sýndi mér hinsvegar sína réttu hlið með sigurmarki á lokamínútu leiksins gegn Middlesbro. Ég veit ekki hvernig þetta
æxlast en hef trú á að heimavöllurinn skipti verulegu máli og veðja því á City. Tákn: 1.

Andri Freyr: Wigan hafa verið aðeins að færast niður töfluna eftir fáránlega góða byrjun… City menn hafa einnig átt gott tímabil þrátt fyrir brottfall Wright-Phillips og verið í ham upp á síðkastið. Ég tel að þetta ferðalag
verði aðeins of strembið fyrir Wigan menn og Man City munu klára þennan leik… Tákn: 1.

+++

4. West Ham – Blackburn

Bjarni: West Ham, Jamm. Tákn: 1.

Andri Freyr: Blackburn í 8. sætinu en West Ham í 9 sætinu. Dagsformið mun ráða úrslitum þarna en heimavöllurinn hjálpar alltaf… brjálaðir stuðningsmenn færa heimamönnum sigurinn. Tákn: 1.

+++

5. Coventry – Middlesbro

Bjarni: Middlespro eiga að hafa það hérna þrátt fyrir að spila á útivelli. Tákn: 2.

Andri Freyr: Ef Middlesbro vinnur ekki þennan leik gegn 15. sætinu í 1. deild þá þurfa þeir að safna í nýtt lið. Hins vegar hef ég einhverja trú á að á heimavelli gætu Coventry strítt þeim aðeins. Fyrir Adda segi ég. Tákn: X.

+++

6. Reading – Birmingham

Bjarni: Reading hafa verið að sýna ágæta takta í 1. deildinni en Birmingham átt í vandræðum og eru ekki að ná sér á strik. Þeir eiga samt möguleika á að halda áfram í bikarnum þannig að þetta verður mjög tvísýnt. Veðja samt á heimasigur Reading: Tákn: 1.

Andri Freyr: Reading hafa tapað 1 leik í deildarkeppninni í vetur og eru að sundurtæta kettlingana í þeirri deild. Birmingham ráða held ég ekkert við neðrideildungana í Reading sem munu eflaust sprengja inn fáranlega mörgum mörkum, beint í grímurnar á Birminghamkisum… Tákn: 1.

+++

7. Brentford – Sunderland

Bjarni: Brentford sýna Sunderland hvernig barátta leikmanna skilar sér og ná því jafntefli gegn Sunderland. Tákn: X.

Andri Freyr: Vá óspennandi leikur… Sunderland munu líklega klára þennan leik enda Brentford ekki sterkasta liðið í heimi í dag… Tákn: 2.

+++

8. Aston Villa – Port Vale

Bjarni: Nú er komið að því að Aston Villa fari með sigur af hólmi eftir að hafa gert ágætt jafntefli við Tottenham um síðustu helgi. Tákn: 1.

Andri Freyr: Það þarf ekkert að spurja að leikslokum í þessum leik.. með Milan Baros innanborðs getur ekkert klikkað… Tákn: 1.

+++

9. Charlton – Leyton Orient

Bjarni: Charlton gegn einhverjum Leyton Or og heimavöllur Charlton. Ég segi nú bara eins og Sverrir Stormsker sagði um árið "Ég geng í sjóinn og hengi mig ef" Charlton sigrar ekki. Tákn:1.

Andri Freyr: Hemmi Hreiðars á skotskónum eins og vanalega og setur þrennuna, Leyton leita svara en finna ekki. Tákn: 1.

+++

10. Preston – C. Palace

Bjarni: Leikmenn Preston hafa staðið sig vel en nú er komið að því að þeir geri jafntefli við Palace. Tákn: X.

Andri Freyr: Bæði þessi lið eru að berjast um umspilið í úrvalsdeildina og býst ég við því að þetta verði alveg rosalegur leikur… Hallast þó meira að því að Presarnir hafi þetta gegn Krystalhallarbúum… Tákn: 1.

+++

11. Leicester – Southampton

Bjarni: Hef trú á því að Southampton menn nái að halda jöfnu í þessum leik og ætli sér að taka það síðar. Tákn: X.

Andri Freyr: Í leiðindaleik verða lokatölur 0-0… rosalega óspennandi leikur, frekar myndi ég vilja taka til í sokkskúffunni minni heldur en að fara á völlinn! Tákn: X.

+++

12. Stoke – Walsall

Bjarni: Nú er möguleiki fyrir Íslendingaliðið með indjánanafnið (Stoke=kynda undir eða bæta á eld) að ná sér í sætan heimasigur. Tákn: 1.

Andri Freyr: Þegar þorrinn nálgast, hljóta Íslendingarnir að vera hraustir og sterkir af súrmetisáti upp á síðkastið og munu þeir taka Walsall menn í afturendann… Súr lyktin af Íslendingunum sem lykta eins og harðfiskar verður þeim erfið. Tákn: 1.

+++

13. Colchester – Derby

Bjarni: Colchester eru efstir í 2.deild og ég hef trú á því að þeir verði sputnikliðið í bikarnum þetta árið. Tákn: 1.

Andri Freyr: Veit ekki margt um þessi lið og allt getur jú gerst í bikarnum.. spurning um að treysta á 12ta mann Colchester og spá þeim sigri? Tákn: 1.

+++

Andri Freyr: Það er kominn tími á að skipta Bjarna út fyrir yngri og ferskari leikmann eins og mig, enda hann kominn með bumbu og grátt í hár 🙂