22/12/2024

120 ára afmæli Sparisjóðs Strandamanna

Miðvikudaginn 19. janúar 2011 eru liðin 120 ár frá stofnun Sparisjóðs Kirkjubóls- og Fellshreppa, en stofnfundurinn var haldinn að Heydalsá 19. janúar árið 1891. Af þessu tilefni er öllum þeim sem leggja leið sína í höfuðstöðvar sparisjóðsins á Hólmavík á afmælisdaginn boðið að þiggja léttar veitingar. Einnig verður boðið upp á léttar veitingar í afgreiðslu sparisjóðsins á Norðurfirði fimmtudaginn 20. jan. en lokað er þar á miðvikudögum. Sparisjóður Strandamanna býður alla velkomna.

"Stofnunarfundur
Sparisjóðs Kirkjubóls og Fellshreppa

Mánudaginn 19. janúarm. 1891 var fundur haldinn að Heydalsá í Kirkjubólshreppi af nokkrum mönnum þar úr hreppi og Fellshreppi í því skyni, að ræða um stofnun sparisjóðs fyrir þessar tvær sveitir.

Fundarstjóri var kosinn Guðjón hreppstjóri Guðlaugsson á Ljúfustöðum og skrifari séra Arnór Árnason á Felli.

1.° Var rætt á víð og dreif um stofnun sparisjóðs. Viðurkenndu allir fundarmenn nauðsyn og nytsemi slíkrar stofnunar, og áleit fundurinn að hinn beinasti vegur til þess að koma á fót sparisjóði fyrir þessar sveitir væri sá, að nokkrir hinna betri manna sveitanna tækju sig saman um að gjörast stofnendur og ábyrgðarmenn sjóðsins, og reyna að fá ennfremur til þess svo sem 1. mann úr nærliggjandi sveitum."