22/12/2024

10 umferðaróhöpp á Vestfjörðum í vikunni

Í fréttatilkynningu um helstu verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum kemur fram að vetrarfærð og snjókoma settu mark sitt á verkefni lögreglunnar á Vestfjörðum í síðustu viku. Í vikunni var tilkynnt um 10 umferðaróhöpp. Bifreið fór út af veginum um Steingrímsfjarðarheiði á þriðjudaginn, en ekki varð slys við þetta óhapp og björgunarsveitarmenn frá Hólmavík fóru til aðstoðar ásamt lögreglu. Bifreiðinni náðist lítið skemmd upp á veg og gat ökumaður haldið áfram för sinni.

Vöruflutningabifreið valt skammt frá Ögri um miðnætti á miðvikudagskvöldinu. Vegna óveðurs reyndist mjög torsótt að komast á staðinn. Björgunarmenn frá Ísafirði, Súðavík og Hólmavík fóru áleiðis og sendi Vegagerðin snjómoksturstæki til að opna veginn inn Djúp. Björgunaraðilum var snúið við eftir að vegfarandi kom ökumanni flutningabifreiðarinnar til aðstoðar og flutti hann í Reykjanes. Meiðsl mannsins reyndust ekki það alvarleg að það réttlætti frekari bjögunaraðgerðir við þessar aðstæður og var beðið átekta til næsta dags.  Ökumaðurinn var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið á Ísafirði daginn eftir. Nokkurn tíma tók að ná bifreiðinni upp á veg en hún var talsvert skemmd eftir þetta óhapp.

Aðfaranótt sunnudagsins, fór bifreið út af veginum um Mikladal, ofan við Patreksfjörð. Engin slys urðu  á fólki og skemmdir litlar á bifreiðinni. Þá fór bifreið út af veginum um Eyrarhlíð milli Ísafjarðar og Hnífsdals á sunnudeginum. Bifreiðin fór niður fyrir veg en stöðvaðist í snjóskafli neðan við vegbrúnina. Mátti litlu muna að bifreiðin færi niður stórgrýtta fjöru þar fyrir neðan. Bifreiðin náðist óskemmd upp á veg aftur og engin meiðsl urðu á ökumanni eða farþega. Önnur tilkynnt umferðaróhöpp voru minniháttar árekstrar innanbæjar á Ísafirði. 

Þrír ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur á Ísafirði og nágrenni. Þá var eigendum 10 bifreiða á norðanverðum Vestfjörðum gefinn sjö daga frestur til að færa bifreiðar sínar til skoðunar.