30/10/2024

Vangaveltur um verslunar- og þjónustumiðstöð

Aðsend grein: Jón Jónsson.
Þegar vegurinn um Arnkötludal kemur í gagnið, og reyndar hvort sem er, væri til mikils að vinna fyrir fyrirtækin og byggðina á Hólmavík að tryggja sér toppsæti á listanum um vinsælasta áningarstaðurinn milli norðanverðra Vestfjarða og annarra landsfjórðunga. Að engum detti annað í hug en að stoppa einmitt þar, taka bensín, borða, versla, kaupa þjónustu, sækja sér upplýsingar og jafnvel staldra lengur við. Verslunarmiðstöð, sambærileg við verslunina í Varmahlíð eða Hyrnuna í Borgarnesi, er því eðlilega eitt af því sem kemur fyrst upp í hugann þegar maður hugsar um þróun í ferðaþjónustu á Hólmavík.

Slík miðstöð þar sem sjoppan, Kaupfélagið og ÁTVR rynnu saman í eitt hús með veglegan opnunartíma, ásamt upplýsingamiðstöðinni, gæti haft töluvert að segja í þeirri baráttu. Þetta myndi bæði bæta þjónustu við vegfarendur sem gætu þá keypt nauðsynjar jafn lengi og matsalan og sjoppan væru opin og væntanlega yrðu jákvæð áhrif af slíkri sameiningu varðandi rekstrarkostnað og aukna vörusölu.

Án þess að fara yfir strikið í hugmyndaflæðinu mætti bæta við þessa þjónustumiðstöð rými fyrir gallerí, nokkrar litlar sérverslanir, t.d. með gjafavöru, gamlar bækur og handverk og líka þjónustufyrirtæki eins og ferðaskrifstofu, bílaleigu, nuddstofu og hárgreiðslustofu eða hvaðeina sem þeim sem eiga og reka slík fyrirtæki eða hyggjast stofna þau dettur í hug. Dálítið smur- og dekkjaverkstæði væri gaman að hafa þarna, bílaþvottastöð og kannski banka (a.m.k. hraðbanka).

Kannski gæti ákveðið rými líka verið útungunarstöð sveitarfélagsins fyrir ný fyrirtæki – eins konar nýsköpunarmiðstöð, þótt hún þurfi reyndar alls ekki að vera staðsett í þjónustuklasa eins og þessum.

Gætu KSH, Essó og fleiri fyrirtæki kannski sameinast um slíkt verkefni? Ef erfitt er að sjá að þau hafi burði til þess, gætu þá ekki byggingarverktakar eða nýtt fyrirtæki byggt og átt og rekið slíkt húsnæði og aðrir leigt þar aðstöðu? Er líklegt að það myndi standa autt? Ég held ekki.

Og plássið fyrir bygginguna er vissulega fyrir hendi, þetta stóra og fína tún milli bílastæðisins og Lækjartúns. Það verður miklu betra fyrir börnin að spila fótbolta upp í Brandskjólum þegar sá völlur verður tekinn í notkun, ekki nærri eins langt að sækja boltann þegar hann fer framhjá.

Ég má til með að nefna í lokin að ávinningurinn af slíkri miðstöð myndi ekki aðeins vera fyrir ferðafólkið. Íbúarnir sjálfir myndu einnig njóta góðs af þjónustunni og sveitarfélagið blómstrar þegar fyrirtækjunum gengur vel. Loks væri ávinningurinn mikill fyrir verslunina á staðnum. Mér virðist ljóst að þegar vegurinn um Arnkötlu kemur þá aukist verslun íbúa á Ströndum í lágvöruverðsbúðum annars staðar töluvert. Íbúum hefur líka fækkað verulega þannig að veltan í verslun á Ströndum hlýtur að hafa minnkað síðustu ár. Það er því mikið í húfi til að öflug verslun haldist hér á svæðinu að það takist að auka hlut ferðafólksins í veltunni umtalsvert og ég held að þjónustumiðstöðin væri skref í þá átt.

Jón Jónsson, Kirkjubóli.