30/10/2024

Úreltur hugsunarháttur í fjarskiptum

Hrannar PéturssonAðsend grein: Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone
Uppbygging langdrægs GSM kerfis Vodafone var rædd á Alþingi í vikunni, eftir að fréttir bárust af þeirri byltingu sem orðið hefur með tilkomu kerfisins, m.a. á Ströndum og á Húnaflóa. Af umræðunni mátti skilja, að uppbyggingin þætti mikið framfaraspor enda væri GSM samband nú komið á fjölda svæða sem áður voru án GSM sambands. Verra þótti mönnum hins vegar, að þjónustan stæði eingöngu viðskiptavinum Vodafone til boða og viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja nytu ekki góðs af.

Á undanförnum árum hefur gríðarleg breyting orðið á íslenskum fjarskiptamarkaði. Ríkið hefur dregið sig út af markaðnum og látið einkareknum fyrirtækjum það eftir að keppa um hylli neytenda. Uppbygging Vodafone á langdrægu GSM kerfi, sem m.a. tryggir samband langt á haf út og upp á fjöll, er einmitt hluti af þeirri samkeppni. Símnotendur á svæðum sem ekki hafa verið í GSM sambandi þurfa þess vegna ekki að bíða eftir því, að keppinautar Vodafone freisti þess að semja sig inn á hið nýja langdræga kerfi – þeir geta einfaldlega með einu símtali í 1414 fært viðskipti sín til þess fjarskiptafyrirtækis sem býður bestu þjónustuna. Þann samanburð óttast Vodafone ekki.

Sá hugsunarháttur er úreltur að gamli Ríkissíminn eigi ávallt að bjóða bestu þjónustuna. Hitt er nútímalegt, að neytendur velji og hafni viðskiptum eftir gæðum þjónustunnar og horfi m.a. til þeirrar staðreyndar að GSM þjónustusvæði Vodafone á Íslandi er stærra en aðrir geta boðið. Á næstu mánuðum mun þjónustusvæðið stækka enn frekar, enda vinna tæknimenn Vodafone að því hörðum höndum að setja upp um 40 langdræga senda til viðbótar þeim sem þegar eru komnir í notkun og tryggja GSM samband í allt að 100 kílómetra fjarlægð.

Rétt er að taka fram, að uppbygging á langdrægu GSM kerfi Vodafone er ekki hluti af svokölluðu GSM2 verkefni, sem stjórnvöld standa fyrir í samstarfi við fyrirtækið. Markmið þess er að tryggja GSM samband á völdum landssvæðum þar sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir slíkum rekstri. Langdræga kerfið er hins vegar rekið á markaðslegum forsendum, því er ætlað að tryggja viðskiptavinum Vodafone bestu mögulegu þjónustuna og stækka hóp þeirra 120 þúsund GSM viðskiptavina sem valið hafa Vodafone.

Hrannar  Pétursson,
upplýsingafulltrúi Vodafone