30/10/2024

Þekking á Vestfjörðum

Þorgeir PálssonGrein eftir Þorgeir Pálsson
Þekking er forsenda framfara. Annað ástand er stöðnun og á endanum afturför. Þekking hefur alltaf skipt máli, alltaf veitt fyrirtækjum og einstaklingum samkeppnisforskot, alltaf skapað verðmæti, en kannski aldrei líkt og nú. Samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja hefur þróast með slíkum hætti að aðgangur að réttum upplýsingum getur einfaldlega skipt sköpum um nýtingu tækifæra og farsælan rekstur.

Vefurinn er í dag mikilvæg uppspretta upplýsinga sem spanna nánast öll hugsanleg og óhugsanleg svið tengd rekstri og stjórnun fyrirtækja. Oft á tíðum nægir að leita á vefnum og finna þannig ótal möguleg svör við áleitnum spurningum. Oft duga þó beinar upplýsingar ekki til og þarf þá að greina þær og túlka. Auðvelt aðgengi að upplýsingum útilokar því ekki þörfina fyrir faglega þekkingu og þjónustu við að greina og túlka upplýsingar og veita viðeigandi ráðgjöf og fræðslu.

Vestfirsk fyrirtæki eru sjálf mikil uppspretta þekkingar og færni, sem finnst óvíða annars staðar. Vestfirðingar hafa ávallt fengið og fá enn, mikið af hugmyndum og þeir hafa verið ósparir á að reyna þær í verki. Margt hefur gengið vel, annað ekki. Það er eins og gengur, en vestfirsk fyrirtæki og einstaklingar hafa lært af þessu þá mikilvægu lexíu, að ekkert er sjálfgefið. Það er ekki sjálfgefið að þekkingu sé miðlað né að sá sem miðlar henni hafi til þess nægilega þekkingu sjálfur. Þekking er ekki og á ekki að vera ókeypis, því þekking felur í sér verðmæti. Og þessi verðmæti skapa samkeppnisforskot sem fyrirtæki, einstaklingar og sveitarfélög leita eftir.

Á Vestfjörðum er það Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða sem kemur að þekkingaröflun fyrirtækja og einstaklinga með því að bjóða mjög víðtæka og sérhæfða þjónustu við að afla, greina og túlka alls kyns upplýsingar. Í raun er það svo, að þekking og reynsla starfsmanna Atvinnuþróunarfélagsins, eða ATVEST eins og fyrirtækið kallast í daglegu tali, spanna tugi málaflokka á öllum sviðum atvinnulífs.

Sem dæmi má nefna að þekking og reynsla starfsmanna spannar svið eins og: Almenn greiningarvinna, stefnumótun, almenn stjórnunar-, markaðs- og útflutningsáðgjöf, vöruþróun, samningagerð, starfsmannamál, lagalegt umhverfi, bókhald, ársreikningagerð, greining ársreikninga, áætlanagerð, upplýsingatækni, verkefnisumsjón, fiskeldi, hafrannsóknir, erlend samskipti, ferðamál, kvenna-verkefni, list og hönnun o.fl o.fl.

Öll þessi reynsla er til staðar og er aðgengileg fyrirtækjum og einstaklingum og sveitarfélögum á Vestfjörðum! Hún er sá grunnur sem ATVEST byggir á og stendur öllum til boða.

Það er mikilvægt hvar sem er, en þó sérstaklega í litlu samfélagi sem Vestfirðir eru, að það besta sé ávalt í boði. Framtíðarsýn ATVEST gerir ráð fyrir einu, öflugu Atvinnuþróunar- og þekkingarfélagi á Vestfjörðum. Það félag verður burðarásinn í allri þekkingaröflun, greiningu og miðlun í þágu vestfirskra fyrirtækja, einstaklinga og sveitarstjórna í framtíðinni. Vestfirðir hafa ekki efni á annarri nálgun!

Þorgeir Pálsson, framkvæmdastjóri Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða