22/12/2024

Það er verk að vinna

Aðsend grein: Jón Bjarnason
Landsbyggðin býður upp á gnótt tækifæra. Byggð landsins er auðlegð og með búsetunni tryggjum við verndun og sjálfbæra nýtingu auðlindanna. Vinstrihreyfingin- grænt framboð beitir sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta og vill hefja vernd náttúru og umhverfis til vegs á Íslandi og treysta byggð um land allt. Vinstri græn hafa talað fyrir ábyrgri efnahagsstefnu á Alþingi og er treystandi til að koma á stöðugleika í efnahagsmálum. Efnahagsstefna stjórnvalda hefur verið íbúum hér á Vestfjörðum eins og annarsstaðar í Norðvesturkjördæmi andsnúin þar sem háir vextir, verðbólga og þensla annarstaðar í samfélaginu hafa þrengt að starfsskilyrðum fólks. Þessi þróun hefur bæst ofan á skerta samkeppnisstöðu svæðisins vegna erfiðra samgangna, hás raforkuverðs auk annars auka kostnaðar sem atvinnulífið og fólk sem býr hér þarf að bera.

Aðgerðir strax

Í hönd fara afdrifaríkustu alþingiskosningar í áratugi. Tækifærið er í vor til að blása til nýrrar sóknar. Við njótum trausts og höfum áunnið okkur trúverðugleika fyrir skýra stefnu og einarðan málflutning. Við þurfum að sækja fram, við þurfum aðgerðir strax til að jafna aðstöðumun eftir búsetu.

Framtíðin varðar okkur öll

Hér í Norðvesturkjördæmi er öflug kona í 2. sæti á lista Vinstri grænna, baráttusætinu, Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir. Hún er kröftugur málsvari jafnréttis, eflingar menntunar í heimabyggð og félagslegra umbóta. Þið þekkið mig af verkum mínum. Ég mun áfram leggja mig fram og berjast fyrir hagsmunamálum Vestfirðinga og landsmanna allra. Við göngum í verkin með þínum stuðningi. Tryggjum Vinstri grænum góða kosningu og tvo þingmenn fyrir okkar kjördæmi. Það er verk að vinna – við erum til. Ágæti kjósandi framtíðin varðar okkur öll, göngum saman til móts við nýja tíma.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.