23/12/2024

Stuðlum að mannúðlegra samfélagi

Aðsend grein: Hallgrímur Magnússon
Í aðdraganda komandi alþingiskosning er nú komið að því að velja hverjir verða á listum framboðsflokkanna. Þann 28.-29. október nk. verður opið prófkjör fyrir Samfylkinguna. Í opnu prófkjöri Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi geta allir tekið þátt í því að velja frambjóðendurna, ekki bara væntanlegir kjósendur Samfylkingarinnar, heldur líka þeir sem líklegir til að kjósa aðra flokka í kjörklefanum í vor.

Þetta er mjög heppilegt fyrirkomulag, því það gefur almenningi möguleika á að styðja gott fólk til góðra verka án frekari skuldbindinga. Það hendir nefninlega oft að fólk vill styðja einstaka alþingismenn í störfum sínum þó maður sé ekki endilega sammála heildarstefnu flokks hans.

Samfélag okkar hefur tekið miklum breytingum undanfarin ár. Peningahyggja er allsráðandi, heilbrigðisstofnunum er stjórnað án tillits til þess hvernig sjúklingunum líður, en meiri gaumur gefinn að líðan ársreikningsins. Einokun og fákeppni er allsráðandi á mörgum mikilvægum sviðum þjóðfélagsins, ekki bara í verslun og sjávarútvegi, heldur einnig í fjarskiptum og fjármálaþjónustu, og bráðum bætist orkuframleiðsla við ef svo fer sem horfir.   

Aukin fíkiefna og áfengisneysla setur líka svip sinn á þjóðfélagið með tilheyrandi ofbeldi og voðaverkum. Víða á landsbyggðinni eiga atvinnuvegirnir undir högg að sækja og fólksflóttinn til höfuðborgarsvæðisins heldur áfram.

Það er því í mörg horn að líta fyrir verðandi þingmenn og vandi fyrir okkur kjósendur að velja hverja við viljum sjá í fyrstu sætunum. Og þó. Í norðvesturkjördæminu hefur Karl V. Matthíasson gefið kost á sér í fyrsta til annað sætið á lista Samfylkingarinnar. Að mínu mati er þarna kominn maður sem líklegur er til að taka á mörgum þeirra vandamála sem nefnd eru hér að framan. Mikil reynsla hans af lífi fólks á landsbyggðinni mun þar koma okkur öllum til góða. Þegar hann sat á alþingi á árunum 2001-2003 var hann óþreytandi að benda á ný atvinnutækifæri til að styrkja landsbyggðina.

Áfengis og fíkniefnavandinn er honum vel kunnur því hann er sérþjónustuprestur þjóðkirkjunnar á því sviði.
Karl er góður ræðumaður, mikill húmoristi og á auðvelt með að fá fólk til að vinna með sér. Hann er verðugur fulltrúi íbúa norðvesturkjördæmis og landsins alls í sölum alþingis á næsta kjörtímabili.

Stuðlum að mannúðlegra þjóðfélagi. Veljum Karl V. Matthíasson í fyrsta til annað sætið á framboðslista Samfylkingarinnar í komandi alþingiskosningum.

Hallgrímur Magnússon