22/12/2024

Staðreyndir og klisjur um vegamál

Einar K. GuðfinnssonAðsend grein: Einar K. Guðfinnsson
Vegagerð skiptir máli. Góðir vegir gagnast byggðunum, bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins, lækka kostnað heimilanna og leysa úr læðingi nýja krafta sem leiða til framfara. Þetta hljómar kannski klisjukennt á köflum. En það skiptir ekki máli. Þetta eru staðreyndir. Það er margföld reynsla fyrir því að framfarir í vegagerð skila sér með svo margbreytilegum hætti að erfitt er upp að telja. Staðan í samgöngumálum ræður miklu um samkeppnisstöðu byggðanna, bæði um fólk og fjármagn. Byggð með góðar samgöngur er að öðru jöfnu öflugri en byggð sem býr við einangrun, svo einfalt er það.

Það er ástæða til þess að hafa áhyggjur af þeim háskaleik sem við nú sjáum birtast okkur í fáránlegum fjárfestingum í húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Samgöngubætur á landsbyggðinni munu stuðla að annarri byggðaþróun og er því jákvætt innlegg, sem hamlar gegn offjárfestingum í húsnæði, sem þegar stendur vannýtt annars staðar.

Tökum dæmi til að mynda

Hagfræðingar og fræðimenn aðrir sem hafa spáð mest í byggðmál telja að samgöngubætur skipti sköpum um viðreisn byggðanna. Færa þeir fyrir því margvísleg rök. Atvinnusvæðin stækka og þjónustusvæðin einnig. Þetta skapar færi til að byggja upp þjónustu og atvinnustarfsemi sem krefst sérþekkingar og mannafla. Fámenn svæði lúta takmörkunum sem ryðja má úr vegi með því að bæta samgöngur.

Dæmin um þetta eru óteljandi. Nefnum vegabætur á Vessturlandi. Aðgengi Snæfellsnes að höfuðborgarsvæðinu. Nefnum stækkun atvinnu og þjónustusvæðisins á norðanverðum Vestfjörðum, sem varð til með Vestfjarðagöngum. Veltum fyrir okkur þeim góðu samgöngum sem eru orðnar á milli NorðVesturlands og höfuðborgarsvæðisins. Og gerum okkur í hugarlund þá breytingu sem verður í byggðum Austur Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, þegar Þverárfjallsvegurinn gerir þær að einni atvinnulegri og þjónustuheild.

Í nafni sanngirni

Þess vegna er svo nauðsynlegt að halda áfram samgöngubótum með miklum krafti. Varla verður séð að unnt sé að vinna þarfara verk í byggðamálum í Norðvesturkjördæmi en að spýta vel í lófana í vegagerð. Stórir áfangar sem við höfum náð, hvetja okkur til dáða. Þeir undirstrika nauðsyninina á því að gera enn betur.

Við hljótum að skírskota til sanngirni þegar við við reisum kröfur um aukna áherslu á þetta svæði. Það þarf ekki að orðlengja það. Allir sanngjarnir menn sjá rökin á bak við það að vegagerð á okkar svæði fái sérstaka meðhöndlun.

Offjárfestingin og húsnæðisbrjálæðið á höfuðborgarsvæðinu

Slíkt mun ýta undir uppbyggingu á öðrum sviðum. Menn finna nýja viðspyrnu krafta sinna. Þess vegna er það svo arðbært til lengri tíma að leggja fé í vegagerð á byggðasvæðum sem eiga undir högg að sækja. Því ekkert er dýrkeyptara okkar þjóðfélagi en búseturöskunin. Offjárfestingin og húsnæðisbrjálæðið á höfuðborgarsvæðinu talar sínu máli um það. Hætt er við að það ástand eigi eftir að reynast okkur afdrifaríkt sem þjóðfélagi. Það hlýtur því að borga sig að leggja fé í verkefni sem stuðla að því að styrkja byggð þar sem hún er fyrir og nýta almennilega þá fjárfestingu sem samfélag okkar hefur lagt í. Samgöngubætur eru hvað best til þess fallnar. Því eigum við að halda áfram á þeirri uppbyggingarbraut á landsbyggðinni.

Einar K. Guðfinnsson, alþingismaður
www.ekg.is.