22/12/2024

Skrifræði Sjálfstæðisflokksins vex

Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Nýlega var lagt fram nýtt frumvarp samgönguráðherra um breytta skipan ferðamála. Eitt helsta nýmæli frumvarpsins er að ráðherra er að búa til enn eina stjórnsýslu- og eftirlitsstofnunina, þ.e. Ferðamálastofu sem á að hafa eftirlit með ferðaþjónustunni í landinu. Í umræðum benti ég ráðherranum á að nær væri að færa ný verkefni til sýslumannanna í landinu í stað þess að búa til enn eina ríkissstofnunina.

Þess ber að geta að útgjöld hins opinbera hafa þanist gífurlega út í stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks eða um heil 10% sem hlutfall af allri veltu í þjóðfélaginu (vergri þjóðarframleiðslu). Stofnunin á að skrá og halda utan um að megninu til sömu upplýsingar og sýslumenn skrá nú þegar um fyrirtækin, sbr. a- til d-lið hér að neðan, og ég veit ekki betur en að það væri lítið mál að fylla út á sýsluskrifstofum e- og f-liðinn einnig.
a. Nafn starfseminnar, kennitala, heimili, símanúmer og netfang.
b. Nafn og kennitala forráðamanns.
c. Rekstrarfyrirkomulag.
d. Ítarleg lýsing á starfsemi.
e. Hvort og þá hvaða opinberra styrkja starfsemin nýtur.
f. Opnunartími starfsstöðvar.
Að auki er ætlunin að Ferðamálastofa sjái um tryggingamál ferðskrifstofa. Ég get ómögulega skilið þess miklu þörf sem virðist vera nú í stjórnsýslunni til þess að skrá sömu upplýsingarnar á mörgum stöðum í stjórnsýslunni.
Bætir ný stjórnsýslustofnun hag ferðaþjónustunar?
Ég hef miklar efasemdir um að ný eftirlits- og stjórnsýslustofnun verði til að styrkja hag ferðaþjónustunnar. Miklu nær væri að horfa til annara þátta, s.s.
1) Að efla rannsóknir, markaðs- og kynningarstarf ferðaþjónustunnar.
2) Hvernig lina megi þjáningar greinarinnar vegna hás gengis íslensku krónunnar.
3) Að færa áfengisgjald í eitthvert samræmi við það sem gerist í hinum vestræna heimi en það er liðlega tvöfalt hærra en í Bretlandi og 10 sinnum hærra en í mörgum ríkjum sem gera út á ferðamenn.
4) Að lækka virðisaukaskattinn sem er hærri hér en í flestum Evrópuríkjum og leggst þungt á greinar sem veita þjónustu.
Ég vonast til þess að samgöngráðherra taki þessum ábendingum vel og skoði með opnum huga hvernig megi einfalda stjórnsýsluna, hagræða og spara í rekstri hins opinbera.
Sigurjón Þórðarson, alþingismaður