22/12/2024

Skjaldbökuævintýrið á Hólmavík

320-einar-og-skjaldaÁ Ströndum gerast ævintýrin með reglulegu millibili. Eitt slíkt varð árið 1963. Þá fann Einar Hansen, norskur Hólmvíkingur, risaskjaldböku á Steingrímsfirði og dró hana að landi á Hólmavík. Skjaldbakan vakti að vonum mikla athygli, enda ekki á hverjum degi sem menn fanga alvöru sæskrímsli.

Happafengurinn mikli

Þriðjudagurinn 1. október 1963 virtist ætla að verða eins og einn af þessum venjulegu dögum við Steingrímsfjörð á Ströndum. Hólmvíkingar stunduðu sína vinnu og bátarnir höfðu farið í róður snemma um morguninn, þrátt fyrir einstakt fiskileysi í Húnaflóanum. Flestir bátar voru til sjós og þar á meðal Hrefna II, báturinn hans Einars Hansen. Þennan dag höfðu Einar og Sigurður Eyþórsson, sonur hans, lagt lóðirnar á venjulegum miðum utan við Grímsey.

Skömmu eftir hádegið sigldu þeir feðgar heim á leið í blíðskaparveðri, blankalogni og kyrrð, sem einkennir Steingrímsfjörðinn sérstaklega á þessum árstíma. Framundan bátnum á miðjum firðinum, utan við Gálmaströnd, kom Einar skyndilega auga á óvenjulega þúst til hliðar við bátinn. „Svei mér ef þetta er ekki rommkútur á floti,“ hugsaði skipstjórinn og afréð að gæta betur að þessum torkennilega hlut sem maraði þarna í hálfu kafi. En rommkútur reyndist það ekki vera, heldur einkennilegasta sjávarskrímsli sem hann hafði augum litið og hafði Einar þó séð ýmislegt um ævina.

Einar Hansen hafði nokkrum árum áður skotið á rostung út á firðinum í kafaldsmuggu, en fáir trúað frásögn hans af því. Í þetta skipti skyldu sveitungarnir ekki eiga annars úrkostar en að trúa honum. Fljótlega komust þeir feðgar að raun um að skrímslið mikla var risaskjaldbaka, enda hafði Einar séð sæskjaldbökur þegar hann var formaður á yngri árum – við Grænhöfðaeyjar vestur af Afríku. Þeir náðu að koma hákarlakrók í kjaft skjaldbökunnar og festa hana við síðuna á trillunni og sigldu síðan glaðir í bragði til hafnar – venjulega tók þessi spölur þá ekki nema 25 mínútur, en með ferlíkið við bátshliðina var þetta klukkutíma stím.

Agndofa landkrabbar

Auðvitað varð uppi fótur og fit í þorpinu þegar Hrefna II kom til hafnar. Fregnin barst manna á millum eins og eldur í sinu. Atvinnulíf staðarins lamaðist þegar í stað, furðufregnin varð til þess að menn hlupu frá verkum sínum hvar sem þeir stóðu og þustu niður að Kaupfélagsbryggju. Í hópi landkrabbanna var héraðslæknir Strandamanna og úrskurðaði hann skjaldbökuna nýdauða, enda var hún algjörlega óskemmd.

Skjalda var dregin upp í fjöru við mikinn fögnuð og forvitni viðstaddra, bæði barna og fullorðinna. Hún var síðan ljósmynduð í bak og fyrir og skoðuð í krók og kring, enda um einstæðan atburð að ræða.

Dermochelys coriacea

Sóknarpresturinn átti skræðu um sæskjaldbökur og öll hersingin þrammaði með honum heim og beið meðan hann fletti í bókinni. Komust menn  fljótlega að þeirri niðurstöðu að hér væri leðurskjaldbaka komin að landi – dermochelys coriacea – heimsins stærsta og frumstæðasta tegund sæskjaldbakna, sem venjulega lifir á öllu suðrænni slóðum en Steingrímsfjörðurinn liggur. Leðurskjaldbökur eru sjávardýr sem koma aðeins að landi til að verpa eggjum sínum – þær lifa í hlýjum sjó en flækjast einstöku sinnum út fyrir sín venjulegu heimkynni.

Skjaldbakan risavaxna var að sjálfsögðu mæld og vegin og reyndist hún vera um 375 kíló og lengdin á henni var 2,03 metrar. Henni var síðan komið í geymslu í frystihúsi staðarins meðan menn réðu ráðum sínum um hvað ætti næst til bragðs að taka.

Lagt í víking

Næstu daga og vikur var varla um annað rætt á Ströndum og margur Hólmvíkingurinn varð að kyngja frásögn Einars um fund hans við rostunginn forðum, því þessi fundur var enn ótrúlegri. Og að sjálfsögðu var rætt um Böggu skjaldbökudrottningu víðar en á Ströndum, heilmikil blaðaskrif voru um atburðinn og oft spjallað um skjaldbökur þessa daga um land allt.

Hólmvíkingar fóru fljótlega að velta fyrir sér að fara með Skjöldu í sýningarferðalag til Akraness og Reykjavíkur, en framan af gekk fremur illa að útvega henni húsnæði í heppilegri frystigeymslu. Að lokum rættist þó úr, áður en áhuginn minnkaði og leiðin suður lokaðist vegna snjóa. Skjaldbakan var sýnd á Akranesi í frystihúsi Haraldar Böðvarssonar 17. október og komu 4-500 manns til að líta á gripinn. Í höfuðborgina lá síðan leiðin með mótorbátnum Haraldi og Einar Hansen hélt sýningu á Böggu einn dag í Fiskifélagshúsinu, þann 20. október. Lögregluþjónar héldu uppi reglu við dyrnar enda var biðröðin löng. Aðgangseyrir var 5 kr fyrir börn og 10 kr fyrir fullorðna, hlægilega lágur á þessum viðreisnartímum að sögn Þjóðviljans. Alls komu á þriðja þúsund manns að sjá skjaldbökuna á þessum eina sýningardegi.

Náttúrugripasafn Íslands keypti síðan risaskjaldbökuna fyrir 10.000 krónur og lagði Menntamálaráðuneytið fram fé til kaupanna. Gerð var afsteypa af skjaldbökunni í Kaupmannahöfn og er hún varðveitt í Náttúrufræðistofnun Íslands og til sýnis í safninu.

35 árum síðar …

Ferðamálafélag Strandasýslu stóð fyrir sýningunni Sjávarskrímsli úr Suðurhöfum – Skjaldbökuævintýrið á Hólmavík 1963, í Upplýsingamiðstöð ferðamála á Hólmavík sumarið 1998. Þar voru til sýnis jarðneskar leifar leðurskjaldbökunnar sem Náttúrufræðistofnun Íslands lánaði góðfúslega, blaðagreinar sem starfsmenn Landsbókasafnsins voru einkar hjálplegir við að útvega, og ljósmyndir sem tengjast þessum merkisatburði. Myndirnar voru nær allar teknar af Pétri Péturssyni og Þórarni Reykdal.

Uppátækið fjármagnaði Ferðamálafélagið með sölu á ljúffengri skjaldbökusúpu og póstkortum með myndinni hér að neðan af Einari Hansen og skjaldbökunni, rétt eftir að hún var dregin á land. Textinn í sýningarskránni – sem Sigurður Atlason og Jón Jónsson hnoðuðu saman – hefur nú verið fluttur hingað á vefinn, til að fólki gefist kostur á að fræðast um þessa furðuskepnu.

Texti: Jón Jónsson og Sigurður Atlason. 

400-einar-og-skjaldaEinar Hansen og skjaldbakan