30/10/2024

Orkan er ekki gefins

Grein eftir Grím Atlason.
Fyrir nokkrum árum var tekist á í þinginu. Raforkulög voru þar til umræðu og markaðsvæðing orkufyrirtækjanna á næsta leyti. Evrópusambandið ku hafa neytt okkur í þessa aðgerð – reyndar söguskoðun sem stenst ekki nánari skoðun. Raforkuverð til neytenda átti auðvitað að lækka heil ósköp, enda samkeppnin í hugum sumra eina svarið við öllu og þá alltaf.

Talsvert var tekist á um hvort þeir sem ekki byggju við þann lúxus að kaupa rafmagnið í þéttbýli myndu ekki þurfa að borga meira fyrir kílówattsstundina en aðrir notendur. Hagfræðingar voru almennt sammála um að lögmál framboðs og eftirspurnar ætti jafnt við þarna eins og annars staðar og þar sem dýrara væri að flytja orkuna um langan veg hlyti það að koma við pyngjuna hjá þessum notendum. Iðnaðarráðherra varðist fimlega og af festu og mælti fyrir hönd ríkisstjórnarinnar:

„Í frv. er lagt til að lögbundin verði sú meginregla að hver dreifiveita hafi eina gjaldskrá. Þó verði heimilt að sækja sérstaklega um gjaldskrá fyrir dreifbýlissvæði enda geti viðkomandi dreifiveita sýnt fram á hærri kostnað við dreifingu raforku í dreifbýli. Orkustofnun verði falið að leggja mat á þörf fyrir sérstakra gjaldskrá fyrir dreifbýli og ákveða mörk gjaldskrársvæða.

Jöfnun dreifingarkostnaðar raforku verður samkvæmt frv. þannig háttað að jöfnun mun aðeins beinast að þeim svæðum þar sem dreifiveitur hafa sýnt fram á að dreifingarkostnaður er hærri en í þéttbýli. Miðað er við að raforkukaupendur á dreifbýlisgjaldskrársvæðum þurfi ekki að greiða hærra gjald fyrir dreifingu raforku en sem nemur hæsta gjaldi almennra gjaldskráa dreifiveitna eftir að tillit hefur verið tekið til niðurgreiðslna.“

Þetta var áður en lögin voru innleidd. Í dag borgar bóndinn 23% meira fyrir rafmagnið en þéttbýlingurinn og nota bene: þá hafa hinir lögbundnu 88 aurar verið dregnir frá. Er furða að menn séu tortryggnir þegar ráðherrar lofa nú eða þegar ríkið ætlar að flytja verkefni til sveitarfélaganna? Í fjármálaráðuneytinu virðist vera notuð önnur gjaldskrá og annar gjaldmiðill en við hin notumst við. Kollegar fjármálaráðherra í ríkisstjórn virðast hafa lítinn áhuga á málinu. Hvað ætli notendur í sveitum landsins þurfi að búa við þetta lengi áður en leiðrétting kemur ef hún þá kemur?

Ég get ekki annað en skorað á iðnaðarráðherra að standa við gefin loforð sem allir flokkar á Alþingi voru þó sammála um að gefa!

Grímur Atlason,
sveitarstjóri í Dalabyggð