22/12/2024

Umbætur við hafnir á Ströndum

640-hafnarfram1

Samkvæmt frumvarpi að samgönguáætlun 2013-2016 sem nú er til umræðu í Alþingi er gert ráð fyrir nokkrum nýframkvæmdum við hafnir á Ströndum á næstu árum. Á Hólmavík hafa töluverðar hafnarumbætur verið gerðar síðustu árin, bæði á hafskipabryggjunni þar sem nýtt stálþil var sett um bryggjuhausinn og í smábátahöfninni þar sem bætt hefur verið við flotbryggjum og þær lengdar, auk þess sem aðstaða til að taka olíu hefur verið lagfærð. Þar er nú fyrirhugað að endurnýja það sem eftir er af stálþilinu að bryggjuhausnum árið 2015 ásamt því að endurnýja lagnir og þekju. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 74,2 millj. árið 2015 og 19,1 millj. 2016 og er kostnaðarþátttaka Strandabyggðar eða Hólmavíkurhafnar 10%.

Þá stendur til að setja fljótandi öldubrjót við endann á austurgarðinum í Hólmavíkurhöfn árið 2015, til að skýla smábátahöfninni betur. Þetta er 3×30 metra flot og er kostnaður áætlaður 18,6 millj. og þátttaka Strandabyggðar 10%.

Í Kokkálsvíkurhöfn í Kaldrananeshreppi eru fyrirhugaðar framkvæmdir strax á þessu ári, en endurbyggja á austurenda bryggjunnar. Kostnaður við það er áætlaður 22 millj. árið 2014 og verður kostnaðarhlutdeild hreppsins 10%.

Í Norðurfirði í Árneshreppi á að setja garðsendaljós á stóra garð á þessu ári og er heildarkostnaður áætlaður 1,4 millj. Á árinu 2015 á síðan að dýpka innsiglinguna innan hafnar og smábátahöfnina og er áætlaður kostnaður 12,4 millj. Þá á að gera viðlegu fyrir smábáta, 20 metra flotbryggju, efst við stóra garð sama ár og er kostnaður við það áætlaður 13,4 millj. Árneshreppur ber 10% kostnaðar af þessum framkvæmdum.