23/12/2024

Merkingar sauðfjár: Merkjareglugerðarfargan og framkvæmd

Aðsend grein: Ásta F. Flosadóttir
Það er ekki oft sem ég hef skammast mín fyrir að vera Íslendingur, en nú síðustu vikurnar hef ég fylgst með svo undarlegum vinnubrögðum og stjórnsýslu að mér er algjörlega misboðið. Og nóg boðið! Nú er staðan orðin sú að, að mínu viti, er orðið nauðsynlegt að upplýsa aðra sauðfjárbændur um gang merkjamála sauðfjár, en þar er sagan orðin svo farsakennd að annað eins hefur varla sést. Að minnsta kosti býð ég ekki í það ef öll mál eru unnin með þessum hætti, þá hafa illa upplýstir pappírspésar greinilega tekið öll völd. Kannski menn treysti því að það sé búið að vinda svo síðustu blóðdropana úr sauðfjárbændum að þeir muni láta þetta yfir sig ganga eins og annað?

Okkar aðkoma að þessu máli er sú að við höfum í nokkur ár flutt inn og selt fjármerki frá RoxanID í Skotlandi.  Þetta fyrirtæki hefur reynst þjónustulipurt og þar er í gangi mikil gróska og þróun í merkingarmálum, t.a.m. hefur RoxanID fengið einkaleyfi á þeirri hugmynd að setja rafrænan kubb inn í pinnann á merkjunum.  Þessi merki hafa reynst frábærlega hér og sauðfjárbændur verið mjög ánægðir með þau.  Nánar má lesa um merkin með því að smella hér

Við fengum pata af tilvonandi reglugerð í sumar en sáum hana ekki fyrr en í september.  Virðist þar vera á ferðinni enn eitt fyrirbærið hannað til að íþyngja sauðfjárræktinni, og var nú nóg fyrir.  Reglugerðin er greinilega ekki nógu vel unnin, það þarf ekki að lesa hana vandlega yfir til að sjá það.  Það er margt í henni sem er illskiljanlegt og sumt hreinasti óþarfi, t.a.m. sú skylda að tvímerkja allt ásetningsfé.  Til hvers í ósköpunum??!!??  Skepnan er eyrnamörkuð, margar eru með brennimark á horni og svo bæjarnúmer í merkinu.  Er ekki nóg að eignarrétturinn á ánni sé þannig þrísannaður?  Og ef merkið sem notað er tollir nú almennilega í (eins og Eva-merkið frá RoxanID), þá get ég ekki séð annað en hér sé á ferðinni algjört bruðl og óþarfi, tilgangurinn enginn.  Ég segi nú bara eins og Ragnar í Sýrnesi:  "það er gott að ærnar hafa ekki fjögur eyru".  Svona má týna til fleiri atrið úr þessari reglugerð og þá veltir maður alvarlega fyrir sér hvar voru okkar hagsmunaaðilar, hvar voru LS og BÍ, þegar var verið að lemja saman þessa endaleysu, voru þeir ekki spurðir eða er getuleysi þeirra manna sem eiga að vera málsvarar okkar sauðfjárbænda svo algjört að þeir hafi lokað blinda auganu gangvart þessu máli??  Það er margt þarna sem illmögulegt er að fara eftir og virðist sem verið sé að skapa eitthvað eftirlitsapparat utan um þetta allt saman.  Það skildi þó ekki vera undirliggjandi tilgangur að skapa dýralæknum atvinnu?

Hvernig ætli það sé, hafa menn ekkert velt þessari reglugerð fyrir sér út frá dýraverndarsjónarmiði?  Hér búum við með sauðfé sem hefur einna minstu eyru sauðfjárkynja, stór og klossuð merki hljóta að vera skepnunum mjög til ama, tala nú ekki um þegar þau eru orðin tvö.  Í sauðfjárræktarlöndum er viðurkennt að sauðfjármerki eigi ekki að þola sömu átök og nautgripamerki af þeirri einföldu ástæðu að skepnan á að hafa möguleika á að ná úr sér merkinu án þess að tæta eyrað í sundur.  Ekki það að það reynir ekki mikið á þetta með Eva eða Adammerkin, þau eru úr svo mjúku efni að þau krækjast ekki auðveldlega í.

Reglugerðin er eitt, en reglur yfirdýralæknis um hvernig skuli fylgja dellunni eftir eru svo annar handleggur og sá ekki betri.  Fyrsta skrefið var að halda fund með merkjasölum í bændahöllinni í byrjun september.  Þar voru kröfur yfirdýralæknis kynntar merkjasölum.  Var þá einum merkjasala að orði að það væri engu líkara en reglurnar hefðu verið samdar með eitt ákveðið merki í huga.  Þegar merkjasalar báðu um þessar kröfur á ensku svo hægt væri að senda þær út til framleiðendanna kom upp úr dúrnum að plaggið væri eingöngu til á tveimur tungumálum, íslensku og norsku.  Spurning hvort plaggið er þýðing?  Ekki reyndist unnt að fá reglurnar á ensku en okkur bent á að þýða sjálf það sem máli skipti fyrir framleiðandann.  Má segja að á þessum fundi hafi verið slegin ákveðinn tónn, og það ekki síður af fulltrúa bændasamtakanna, sem átti eftir að klingja nokkuð hátt og gerir enn.  Fór það svo að sumir merkjasalar dróu sig í hlé strax, þeir þóttust sjá í hvað stefndi og höfðu líka reynslu síðan nautgripamerkingarnar voru teknar upp.  Við vorum kokhraust, vissum að merkin eru góð og treystum því að kerfið myndi virka eins og til er ætlast.  Annað kom þó á daginn.

Næsta skref var að fá viðurkenningu frá yfirdýralækni að merkin uppfylltu þær kröfur sem hann gerir.  Þessar kröfur eiga víst að vera í samræmi við kröfur Evrópusambandsins um merkingar og því voru merkjasalar nokkuð rólegir, augljóst að merki sem hafa nú þegar fengið viðurkenningu í löndum EB hlytu einnig að vera viðurkennd hérlendis.  Við fengum viðurkenninguna fljótt og vel, öll þau merki sem við lögðum fram fengust viðurkennd, það voru Adam og Adamatic í lömb og svo Eva-merki (ewe-babe) í fullorðið fé.  Þá settumst við hjónakornin niður með reiknivél og útbjuggum tilboð í ásetningsmerki til að leggja fram í útboði BÍ. 

Fyrirkomulagið á útboðinu er svo kapituli útaf fyrir sig.  Landbúnaðarráðuneytið skipar BÍ að standa fyrir útboði í ásetningsmerki.  Er það eðlilegt?  Myndi ekki eitthvað heyrast í sjómönnum ef Sjávarútvegsráðuneytið skipaði félagi útgerðarmanna að standa fyrir útboði á netum?  Sjáið þið fyrir ykkur að ráðuneytið skipaði BÍ að hafa útboð á dráttarvélum og eftir það skyldu allir aka um á Ferguson?  Ekki það að ég hafi neitt persónulega út á Ferguson að setja, en er þetta ekki undarlegt?  Einhvernveginn finnst manni að það að margir taki sig saman og fái söluaðila til að bjóða í viðskipti sé eðlileg útboðsleið, sbr. áburðarútboð sem Búgarður er þessa daganna að safna þátttakendum í. 

BÍ fékk þó að semja útboðsreglurnar og voru þær kynntar á þessum umrædda septemberfundi.  Vegna athugasemda merkjasala voru gerðar nokkrar breytingar á þessum reglum, t.a.m. var ákveðið að bjóða aðeins út til eins árs en ekki þriggja eins og upphaflega var áætlað.
Reglurnar voru þannig að útboðið var í tvennu lagi, annarsvegar átti að bjóða í miðað við að 3 merkjagerðir yrðu teknar inn, og hins vegar miðað við að ein gerð yrði inni.  Ef tilboð um eitt merki væri 25% lægra en lægsta tilboð með 3 merkjum átti að taka inn eitt merki.  Þessi merki ætlaði BÍ að borga fyrir bændur, það fé á að taka af þróunarsjóði sauðfjársamnings.  Í þróunarsjóði þessum eru peningar sem þarf að koma til sauðfjárbænda og þarna sá BÍ leið til þess.  Ólafur Dýrmundsson hefur bent á að til er mun auðveldari, sanngjarnari og einfaldari leið en útboð, til að ná þessu markmiði, nefnilega að greiða bændum styrk til merkjakaupa eftir fjölda á forðagæsluskýrslum.  Þessi leið hlaut því miður ekki hljómgrunn innan BÍ, en hugmyndin er allrar athygli verð og fannst mér hún vera afskrifuð óþarflega fljótt.  Nær hefði verið fyrir BÍ að fara þessa leið, safna svo saman hópi bænda og leita tilboða fyrir þennan hóp.  Það hefði verið mun hreinlegri leið og sanngjarnari fyrir bændur.

Jæja, svo voru tilboðin opnuð og niðustaðan kynnt í Bændablaðinu.  Við vorum með lægsta tilboðið í þremur merkjagerðum, en norska fyrirtækið OS var lægst miðað við eina gerð.  Þarna á milli munaði minna en 25% og því ljóst að BÍ myndi þurfa að semja við þrjá aðila; okkur, AXI ehf og OS.  Það var líka ljóst að ef okkar tilboð í 3 merki hefði ekki verið til staðar hefði eingöngu verið samið við norsarana.  Og þá voru klærnar settar út.  Fulltrúi yfirdýralæknis, Gísli Sverrir, hringir í okkur nokkrum dögum seinna og ber það upp á okkur og RoxanID að við höfum logið til um þann kraft sem þurfi til að ná merkjunum í sundur og því sé yfirdýralæknir að íhuga að draga viðurkenninguna á ásetningsmerkjunum til baka.  Af orðum Gísla mátti ráða að einhver innan BÍ væri á þeirri skoðun að okkar merki væru léleg og vildi þau helst út í hafsauga.  Þessar ásakanir koma okkur mjög á óvart og eru óverðskuldaðar, merkin búin að vera í notkun hér síðan 2001 og hafa reynst frábærlega, m.a. á Tilraunabúinu á Hesti, viðurkennd í Bretlandi og notuð þar síðan 1998.  Hvað var eiginlega að gerast?

Skítalyktin af málinu hefur ekkert gert nema magnast síðan.  Næst fer yfirdýralæknir í að fá Iðntæknistofnun til að prófa hversu mikinn kraft þurfi til að ná merkjunum í sundur.  Þá eru eingöngu prófuð þau 3 merki sem voru lægst í útboðinu, merki frá Vélaborg voru ekki prófuð þrátt fyrir að hafa fengið viðurkenningu.  Eftir þessa "athugun" var viðurkenningin á Eva-merkjunum dregin til baka, sem og viðurkenning merkjanna frá AXI ehf.  Þetta gagnrýndum við harkalega með því að klaga bæði í ráðuneytisstjóra og landbúnaðarráðherra.  Þrátt fyrir dræm svör var greinilegt að eitthvað tókst okkur að ýta við mönnum, a.m.k. fengum við þau boð að mæta í Iðntæknistofnun á þriðjudaginn var (25. okt.) og fylgjast með prófuninni.  Þá voru prófuð öll merki sem fengið höfðu viðurkenningu yfirdýralæknis sem ásetningsmerki.  Á Iðntæknistofnun fengum við staðfest að prófunin var gerð eftir fyrirmælum Gísla Sverris, en ekki eftir neinum stöðlum eða reglum um prófun merkja.  Því er ljóst að niðurstöður prófunarinnar eru algjörlega marklausar, enda augljóst að það hvernig staðið var að prófuninni hyglaði þeim merkjum sem hafa "linann" pinna, þ.e. átakið er svo skakkt að pinninn sjálfur bognar og því er ekki farið að reyna á læsinguna eins snemma og hjá þeim merkjum sem hafa harðann pinna.  Athyglisvert var einnig að enginn fulltrúi yfirdýralæknis þorði að láta sjá sig á Iðntæknistofnun meðan athugunin fór fram. 
Framleiðandi merkjanna hefur sent okkur sýnishorn af breskum staðli fyrir prófanir á fjármerkjum þar sem skýrt kemur fram að merkin skuli togast í sundur með "öxultogi" þ.e. átakið skal koma beint á pinnann og með því móti þola Eva-merkin vel yfir 200 N kraft, en það eru kröfurnar sem gerðar eru fyrir sauðfjármerki í Bretlandi.  Það væri nær yfir yfirdýralækni að láta viðurkennda stofnun erlendis prófa merkin ÁÐUR en hann ákvað að viðurkenna þau upphaflega.

Eftir þessa "prófun" þótti okkur ljóst að enginn merki stæðust kröfur yfirdýralæknis NEMA norsku merkin frá OS.  Samt gerist það að yfirdýralæknir dregur aðeins til baka viðurkenninguna á Eva-merkjunum, þrátt fyrir að merkin frá Vélaborg og AXI hafi ekki heldur uppfyllt kröfurnar!!  Það getur því ekki annað verið en rækilega hafi verið slegið af kröfunum, en samt ekki nægjanlega til að Eva-merkin kæmust á blað.  En afleiðingin er sú að nú er hægt að ganga til samninga við OS eingöngu, og þau merki verða þau einu sem eru greidd fyrir sauðfjárbændur.  Finnið þið sömu skítalyktina af þessari pólitík og ég?  Mér hefur verið bent á það ítrekað síðustu daga að þessi gjörningur geti ekki verið löglegur og réttast sé að fara í mál við yfirdýralækni og landbúnaðarráðuneytið.  Og kannski ætti maður að gera það.
Að minnsta kosti er algjörlega ljóst að það hefði komið mun betur út fyrir okkur að taka ekki þátt í útboði BÍ, þá hefðum við haldið viðurkenningu YD og selt merkin beint til bænda eins og áður.

Því ein er sú spurning sem ég hef spurt hvern pappírspésann á fætur öðrum en enginn virðist geta svarað:
"Hvernig er hægt að viðurkenna ekki merki hérlendis sem eru viðurkennd í landi eins og Bretlandi, landi sem hefur verið í EB í nærri 40 ár"?????  Talandi um að vera kaþóskari en páfinn…..

Okkar viðbrögð eru eftirfarandi:
1.  Við höldum áfram að reka þetta mál í yfirdýralækni og hættum ekki fyrr en hann hefur viðurkennt Eva-merkin sem ásetningsmerki.  Þurfi til þess málaferli, þá það.  Þeim getur ekki verið stætt á þessu.
2.  Við drögum okkur út úr útboði BÍ og sjáum eftir því að hafa nokkurntíma verið svo vitlaus að taka þátt.  Þar var augljóslega dregin taumur einnar merkjagerðar alveg frá upphafi og ég hef bara ekki getað merkt það að BÍ hafi verið að vinna fyrir sauðfjárbændur þarna.  Flytið bara inn þessi norsku merki eins og ykkur sýnist, þau koma ALDREI inn í okkar fjárhús!
3.  Við höfum fengið Eva-merkin viðurkennd sem lambamerki og einnig Adam og Adamatic.  Við munum flytja þau inn og selja sem slík, við getum ekki skipt okkur af því þó menn noti þau í ásetningslömb.  Við ætlum sjálf að nota Eva-merkin í okkar ásetning, sem og fjöldi bænda og ráðunauta sem hefur haft samband síðustu daganna.  Og hvað ætla þeir þá að gera við okkur í vor?  tja, dýralæknastóðinu er þá velkomið að safnast saman til að smala afréttina fyrir okkur, það vantar alltaf fólk í smalamennsku.

Hver sauðfjárbóndi hefur núna um nokkrar leiðir að velja:
að vera stilltur eins og venjulega, láta þetta allt yfir sig ganga og þiggja ölmusumerkin.
skrifa lesendabréf í bændablaðið, sparka í þá ráðamenn sem viðkomandi hefur einhver tengsl við, til að knýja fram breytingar eða frestun reglugerðarinnar meðan verið er að prófa merkin á viðurkenndan hátt.
sýna fyrirlitningu sína á vinnubrögðunum og kaupa viðurkennd merki af Vélaborg eða AXI.
gefa skít í reglugerðina, yfirdýralækni og útboð BÍ, kaupa þau merki sem viðkomandi sýnist og nota þau.

Við ætlum að nota Eva-merkin í ásetning, viðurkennd eða ekki, hvað ætlar þú að gera?

Gott væri að heyra í mönnum, viðbrögð má m.a. senda á astaff@hvippinn.is

Kveðja
Ásta F. Flosadóttir og Þorkell M. Pálsson,
sauðfjárbændur á Höfða I, Grýtubakkahreppi