22/12/2024

Kostnaður sveitarfélaga vegna minkaveiða vaxandi byrði

Aðsend grein: Guðbrandur Sverrisson
Ég hef verið að ljúka við að skrifa reikninga vegna minkaveiða í sumar og ég verð að segja að mér er farið að blöskra framkoma ríkisins vegna þessa þáttar í rekstrakostnaði sveitarfélaganna. Ég er búinn að skrifa reikninga vegna 151 minks á árinu 2005. Viðmiðunartaxti veiðistjóra  fyrir hvert minkaskott er 3000 krónur, þetta gerir 453.000,- krónur, en vegna þess að ég er með virðisaukaskattskyldan rekstur er mér lögð sú skylda á herðar að innheimta fyrir ríkissjóð 24,5% virðisaukaskatt af þeim kostnaði upp á krónur 110.985,-

Endurgreiðsla ríkisins vegna minka og refaveiða skal vera allt að 50% af kostnaði, þó er vegna refaveiða einungis endurgreitt vegna skotlauna sem þó mega ekki vera hærri en 7.000.- krónur á dýr  þ.e. viðmiðunarverð veiðistjóra. Við minkaleit er endurgreitt vegna skotlauna pr. dýr og einnig er endurgreitt vegna launa sem þó er bundið við viðmiðunartaxta veiðistjóra sem er 650 krónur á tímann og 50 krónur á ekinn km.

Endurgreiðsla síðustu ára hefur einungis verið 30 % og svo mun verða einnig þetta ár. Það þýðir að í dæminu hér að ofan mun þátttaka ríkisins verða 24.915,- krónur, en hlutur sveitarfélaganna 539.070,- krónur.

Þetta er orðið með öllu óþolandi framkoma af hálfu ríkisvaldsins sem á sínum tíma leyfði innflutning á minknum án tilhlutunar sveitarfélaganna, stóð síðan illa að eftirliti með því að dýrin slyppu ekki út,   sinnti ekki skyldum um að ná aftur dýrum sem sluppu og ætlar svo nánast að fría sig af kostnaði sem af því stafar.

Sveitarfélög verða að fara að taka höndum saman við að reka þennan kostnað af höndum sér, því eðlilegt er að sá greiði skaðann sem upphaflega gaf út innflutningsleyfi fyrir minkinn án þess standa að eftirfylgninni varðandi búnað og eftirlit búanna svo dýrin slyppu ekki út í viðkvæma náttúruna. Þetta gæti verið verðugt samvinnuverkefni sveitarfélagannna núna eftir að úrslit sameiningarkosninganna  liggja fyrir.

Guðbrandur Sverrisson,
bóndi, minkaveiði- og sveítarstjórnarmaður

Einum fjandanum færra

Betra að vera viss um að meinvættin sé dauð