30/10/2024

Kjósum nýja ríkisstjórn

Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson
Alþingiskosningarnar snúast um það hvort núverandi ríkisstjórn heldur áfram eða nýir flokkar koma að landsstjórninni. Ef Frjálslyndi flokkurinn fær góða kosningu þá er ríkisstjórnin fallin, annars heldur hún velli. Þetta hafa kannanir staðfest. Velgengni Frjálslynda flokksins mun ráðast fyrst og fremst í Norðvesturkjördæmi, fái flokkurinn góða kosningu þar mun niðurstaðan á landsvísu verða nægilega góð til þess að ríkisstjórnin fellur.

Takmarkið er að Frjálslyndir fái áfram tvo þingmenn kjörna í kjördæminu og gangi það eftir verður ný ríkisstjórn og ný stjórnarstefna sem markast af áherslum okkar í atvinnu- og velferðarmálum. Málið er ákaflega skýrt, átakalínur í íslenskum stjórnmálum liggja í gegnum Norðvesturkjördæmi og úrslitin ráðast af árangri Frjálslynda flokksins. Breytingar verða ef flokkurinn fær áfram tvo þingmenn  í kjördæminu, annars ekki.

Í atvinnumálum er knýjandi að gera breytingar í sjávarútvegi. Opna þarf atvinnugreinina aftur og innleiða í útgerðina atvinnufrelsið sem er varið í stjórnarskrá lýðveldisins. Til þess að tryggja þjóðareignina á auðlindinni þarf að setja löggjöf um sölu og leigu á aflaheimildum með skýrum almennum reglum um nýtingarréttinn, framboð og aðgang að aflaheimildum, ráðstöfun þeirra með almannahagsmuni að leiðarljósi og ákvæðum sem færa ríki og sveitarfélögum tekjur af auðlindinni.

Opnunin sem Frjálslyndi flokkurinn leggur til er fólgin í því að árlega verði leyft að veiða 50 þúsund tonn af þorski umfram þau 170 þúsund tonn sem eru afmörkuð í núverandi kvótakerfi. Öll leiga eða sala aflaheimilda fari um opinberan markað, en vilji núverandi handhafar aflaheimilda nýta þær til veiða eingöngu verður ekki hróflað við þeim réttindum.

Tuttugu þúsund tonnum af þessum 50 þúsund  verður sérstaklega  ráðstafað til leigu í byggðarlögum sem hafa búið við neikvæðan hagvöxt á undanförnum árum með skilyrðum um að veiðar og vinnsla fari fram á þeim atvinnusvæðum. Leigutekjurnar renni til viðeigandi sveitarfélaga. Að auki verður tegundum í kvótakerfinu fækkað og handfæraveiðar á eigin bát leyfðar með ákveðnum skilyrðum.

Atvinnufrelsi í sjávarútvegi  er svar okkar og það mun hrinda af stað algerri byltingu í kjördæminu, þar sem nýir menn munu hasla sér völl í útgerð og vinnslu. Stærri hlutur fiskimiðanna en nú er verður nýttur frá nærliggjandi byggðarlögum og stóraukið fjármagn mun renna um þau og efla sveitarfélögin, atvinnulíf og fyrirtæki. Fjármagn, sem í dag er dregið út úr atvinnugreininni og skilar litlu sem engu til byggðarlaganna.

Þetta er fyrst og fremst breyttar pólitískar áherslur, sem grundvallast á því skapa íbúunum tækifæri til athafna með því að nýta auðlindir lands og sjávar og aðra aðstöðu sem fyrir hendi er. Stóriðjuuppbygging í Hvalfirði er gott dæmi um árangur af  atvinnuuppbyggingu, sem hefur gjörbreytt stöðu atvinnumála og íbúaþróun á Vesturlandi og  leiðir svo til sóknar á öðrum sviðum.

Leiðin fram á við liggur í gegnum atvinnumálin, þar sem atvinnufrelsið er grundvöllurinn. Því verði fylgt eftir með stórstígum framförum í samgöngum og fjarskiptum á næstu 4 -6 árum. Fjármagn til þess er fyrir hendi eftir sölu Landssímans og það á að nota. Nái áherslur Frjálslynda flokksins fram að ganga í atvinnu- og samgöngumálum verður ríkjandi bjartsýni og sóknarhugur um allt kjördæmið í lok næsta kjörtímabils.

Kristinn H. Gunnarsson þingmaður, í 2. sæti Frjálslyndra í Norðvesturkjördæmi
www.kristinn.is