22/12/2024

Félagsmálasjóður Framsóknar

Aðsend grein: Valdimar Sigurjónsson
Mig langar að vekja athygli á ályktun sem samþykkt var á nýafstöðnu flokksþingi Framsóknarflokksins. Ályktunin fjallar um íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsmál, en flokkurinn stefnir á að gera stórátak í þessum málefnum. Mikilvægi þessara málaflokka er gríðarlegt, t.d. hvað varðar lífsgæði, menntun, forvarnir, heilbrigði og byggðamál. Aukið framboð og aukin gæði eiga saman að stuðla að almennari iðkun auk þess á að tryggja öllum  jafnan rétt  til þátttöku.

Eftirfarandi eru nokkrir punktar úr ályktuninni:

·         Gera auknar faglegar kröfur til þjálfara og leiðbeinenda.
·         Ríkið komi að fjármögnun íþrótta- og æskulýðsstarfs og stuðli þannig að almennri iðkun.
·         Að ríkið beiti sér fyrir því í samvinnu við sveitarfélög að byggja upp aðstöðu fyrir hvers konar íþrótta- og tómstundaiðkun.
·         Tryggja þarf samvinnu og samráð milli leiðbeinanda til að stuðla að velferð þátttakenda.
·         Mynda þarf heildstæða stefnu um þessi málefni í samvinnu ríkis og sveitarfélaga.
·         Koma skal á sérstökum félagsmálasjóði sem sveitarfélög geta sótt í fjármagn, í samræmi við þá starfsemi sem þau bjóða upp á í þessum málaflokkum. Félagsmálasjóðurinn stuðlar að jafnrétti til þátttöku, fjölbreyttu framboði, almennari þátttöku, auknum gæðum og aukinni samkeppnishæfni sveitarfélaga.
·         Til að geta sótt í opinbera sjóði verði að leggja fram námskrá – lýsingu á því starfi sem fram fer – faglegum kröfum, mönnun, tryggingum o.fl.
·         Sérstaklega þarf að vinna með markvissum hætti að því að fá börn og unglinga af erlendum uppruna til að taka virkan þátt í íþrótta- og / eða æskulýðsstarfi.

Fyrstu skrefin eru að marka stefnu og mynda regluverk um úthlutun úr félagsmálasjóði í samvinnu við samtök sveitarfélaga ásamt því að áætla árlega lágmarksfjárhæð sem rennur frá ríkinu til sjóðsins. Koma þarf af stað markvissu námskeiðahaldi til handa þeim sem leiðbeina í íþrótta-, tómstunda- og æskulýðsstarfi.

Nái ályktunin fram að ganga mun það gerbreyta því umhverfi sem nú er, sérstaklega hvað varðar dreifðari byggðir.  Ályktunin felur í sér hvata fyrir sveitarfélög að hafa fjölbreytt úrval í boði og ríkið mun koma til móts við kostnað sem felst t.d. í auknu mannahaldi og framboði á ferðum. Almenn þátttaka er grundvallaratriði sem oft vill gleymast, en of mörg dæmi eru um að þeir aðilar sem aðhyllast ekki keppnisgreinum eða þeim greinum sem „vinsælastar“ eru hverju sinni verði útundan og missi áhuga á félagsstarfi.

Þarna er Framsóknarflokkurinn á heimavelli, en ungmennafélagsandinn bærist ávallt í brjósti framsóknarfólks.

Valdimar Sigurjónsson
3. sæti á framboðslista Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi.
www.valdimar.is