22/12/2024

Falleinkunn fólksins

Aðsendar greinar: Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður
Gallup birti í dag niðurstöður könnunar sem fyrirtækið gerði í desember síðastliðnum um frammistöðu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum. Úrtakið var tæplega 1200 manns og svarhlutfallið um 60%. Meirihluti svarenda telur að hún hafi sinnt byggðamálum illa, nær allir ( 83%) telja að ríkisstjórnin sinni ekki málefnum allra kjördæma jafnvel og 27% svarenda telur að Norðvesturkjördæmi sé verst sinnt. Næsta kjördæmi fékk aðeins 7% svo það er afgerandi álit svarenda í könnuninni að Norðvesturkjördæmi sitji á hakanum.

Aðeins 29% svarenda telja að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel en 53% telja hana hafa staðið sig illa. Þegar skoðaðir eru þeir, sem búa utan höfuðborgarsvæðisins, þá eru aðeins 16% sem segja að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel, en heil 68% telja hana hafa staðið sig illa og eru þeir rúmlega fjórum sinnum fleiri en hinir ánægðu.

Aðeins helmingur af stuðningsmönnum stjórnarflokkanna telja ríkisstjórnina hafa staðið sig vel og um þriðjungur þeirra telur hana hafa staðið sig illa. Það kemur ekki fram sérstaklega hver er afstaða stuðningsmanna ríkisstjórnarinnar á landsbyggðinni, en það má heita fullvíst að óánægði hópurinn sé stærri en hinn og það má geta sér til um það með nokkurri vissu, að í Norðvesturkjördæmi ríði ríkisstjórnin ekki feitu hrossi frá þessari könnun, hvorki meðal stuðningsmanna sinna né kjósenda almennt.

Þetta eru skýrar og afdráttarlausar niðurstöður. Óvenju ákveðinn dómur almennings. Í stuttu máli fær ríkisstjórnin falleinkunn. Þessum dómi er ekki hægt að áfrýja, honum verða menn að una og gera það eina sem rétt er, að taka mark á skilaboðunum og taka til hendinni og það fyrr en seinna. Það er beðið eftir ríkisstjórninni í Norðvesturkjördæmi. Hún á leikinn og getur með skynsamlegum viðbrögðum snúið stöðunni sér í vil.

Það vill svo vel til að fyrir fáum dögum var birt vönduð skýrsla sem nefnist landfræðileg litróf íslenska fasteignamarkaðarins. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi þingsályktun um könnun á rýrnum á verðmæti fasteigna á landsbyggðinni og í skýrslunni sem starfshópur gerði eru viðamiklar upplýsingar um þróun fasteignaverðs, launa, íbúafjölda á landsbyggðinni á árunum 1990 til 2004, greiningu á ástæðum þróunarinnar og tillögur um aðgerðir.

Þarna kemur fram að fasteignaverð hækkaði að raungildi á tímabilinu frá 24% upp í 63% , mest á Vesturlandi. Tvö landssvæði skáru sig úr, annars vegar gamla Norðurland vestra og hins vegar Vestfirðir. Fasteignaverð hækkaði aðeins um 1% að raungildi á Norðurlandi vestra á þessu tímabili og lækkaði um 28% á Vestfjörðum, en bæði þessi svæði eru í hinu nýja Norðvesturkjördæmi ásamt Vesturlandi.

Svipaða sömu er að segja af íbúaþróun. Íbúum á Norðurlandi vestra fækkaði um 15% og um liðlega 20% á Vestfjörðum. Líklega hefur aldrei orðið jafnmikil fækkun á jafnskömmum tíma. Raunhækkun launa var svipuð á landinu á þessu árabili, hækkaði um 28% á Norðurlandi vestra og allt upp í 35% raunhækkun á höfuðborgarsvæðinu. Eina landsvæðið sem sker sig úr eru Vestfirðir, en þar varð raunhækkun launanna aðeins um 15% eða helmingur þess sem annars staðar varð. Austurland sýndi lengst af svipaða þróun og Norðurland vestra og Vestfirðir en stóriðjan eystra sneri þróuninni við til betri vegar.

Tillögur starfshópsins liggja fyrir: uppbygging byggðakjarna, bættir vegir og fjarskipti, efla starfsemi háskóla og rannsóknarstofnana, atvinnuuppbygging með stórverkefnum, fjárfestingum og nýsköpun, auka umsvif hins opinbera og draga úr efnahags- og gengissveiflum svo það helsta sé nefnt.

Framfarirnar á Vesturlandi eru skýrasta dæmið um árangur af samgöngubótum með Hvalfjarðargöngum sem opnaði leiðina fyrir stóriðju í Hvalfirði og uppbyggingu háskóla í Borgarfirði.

Greiningin liggur fyrir, tillögurnar liggja fyrir, álit fólksins liggur fyrir, það er ekki eftir neinu að bíða, röðin er komin að Norðvesturkjördæmi. Það er ekkert náttúrúlögmál að fólki fækki áfram á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra. Vilji er það sem til þarf.

Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi
www.kristinn.is