22/12/2024

Ekki veitir af

Grein eftir Einar K. Guðfinnsson
Það er rétt sem á hefur verið bent, að mikilvægt er að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum að snúa hinni kröppu vörn samfélagsins í öfluga sókn. Að undanförnu höfum við brugðist við margvíslegum vanda fyrirtækjanna og heimilanna þó alveg sé ljóst að enn þurfi að gera betur. Nefna má aðgerðaráætlun þá sem ríkisstjórnin hefur kynnt og verið er að hrinda í framkvæmd fyrir heimilin. Þessi áætlun leit dagsins ljós þann 14. nóvember síðastliðinn og hægt er að kynna sér hana á vef forsætisráðuneytisins. Þar má einnig sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi atvinnulífsins.

Að ýmsu hefur verið unnið sem miðar einnig að því að örva atvinnulífið. Ekki síst að nýta þau tækifæri sem nú gefast fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun af margs konar tagi. Um þau mál hefur margt verið sagt og ljóst að nú eru að verða til ákaflega spennandi atvinnutækifæri, sem ekki veitir af við þessar aðstæður.

Ég hef víða lagt áherslu á þetta í máli mínu upp á síðkastið. Meðal annars við opnanir líftæknismiðju Matís á Sauðárkróki og matvælasmiðju sama fyrirtækis á Hornafirði og nú síðast við setningu 26. þings Sjómannasambands Íslands 4. desember. Þar fjallaði ég meðal annars um tvo sjóði á sjávarútvegssviði sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Annars vegar samkeppnisdeild Verkefnasjóðs og hins vegar AVS sjóðinn. Báðir eru þessi sjóðir eru samkeppnissjóðir og verða þeir sem styrk hljóta að leggja til amk. jafn há framlög. Með því tvöfaldast rannsóknarféð hið minnsta.

Hinn fyrri sjóðurinn (Samkepppnisdeildin)  hefur það hlutverk að efla hafrannsóknir og auka fjölbreytni þeirra. Varlega má áætla að sá sjóður hafi stuðlað að rannsóknum fyrir amk. 300 milljónir króna, á sviði þar sem ekki var auðvelt um fjármögnun áður og fyrr.

AVS er mun stærri sjóður og hefur víðtækara hlutverk (aukið verðmæti sjávarfangs). Má ætla að vel á fjórða milljarð króna hafa verið leystir úr læðingi til nýsköpunar í sjávarútvegi fyrir tilstilli AVS.

Þetta eru dæmi um sóknarhug og hvernig það fé sem við höfum til rannsókna- og þróunarstarfs er nýtt til þess að efla atvinnulífið og einkum nýsköpun í landinu. Víst er að ekki mun af veita.

Einar Kristinn Guðfinnsson, 5. þingmaður Norðvesturkjördæmis
og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra