22/12/2024

Beinum athyglinni að því sem máli skiptir

Grein eftir Kötlu Kjartansdóttir
Kynning frambjóðenda V-listans fór fram á Café Riis í síðustu viku þar sem 3 efstu á listanum, þeir sem sitja í baráttusætunum, kynntu sig og sínar áherslur. Hér birtist kynning Kötlu Kjartansdóttur sem skipar 2. sæti listans:
Mig langar til að byrja á því að segja ykkur smá deili á sjálfri mér í örfáum orðum af því að ég er svo nýflutt hingað og mörg ykkar hafa kannski ekki hugmynd um hver ég er. En ég er semsagt menntaður þjóðfræðingur og starfa núna sem verkefnastjóri hjá Þjóðfræðistofu. Ég kláraði BA-nám frá Háskóla Íslands í þjóðfræði og íslensku 2001 og hóf svo mastersnám við Edinborgarháskóla 2003. Á þessum tíma eignaðist ég börnin mín 2, Unu Gíslrúnu 10 ára og Matthías 7 ára, með eiginmanni mínum Kristni Schram sem nú er forstöðumaður Þjóðfræðistofu.

Uppruni og fyrri störf

Í tengslum við nám – og starfsreynslu hef ég komið víða við. Öll menntaskólaárin vann ég sem móttökuritari á Heilsugæslustöð Kópavogs og við þrif á stigaganginum í blokkinni minni í Álfheimum 68, í Reykjavík. Þar bjó ég, á 4. hæð ásamt foreldrum mínum og 4 eldri systrum, frá því að ég fæddist og þar til ég flutti að heiman. Foreldrar mínir eru Kjartan Ólafsson fyrrum ritstjóri og alþingismaður og Gíslrún Sigurbjörnsdóttir handavinnukennari. Pabbi minn er fæddur og uppalinn á Laugum í Súgandafirði og foreldrar hans voru Sigríður Pétursdóttir vinnukona og Ólafur Jón Ólafsson barnakennari. Mamma mín fæddist í Uppsölum í Svíþjóð þar sem faðir hennar, Sigurbjörn Einarsson biskup, var við nám og móðir hennar er Magnea Þorkelsdóttir biskupsfrú. Að ætterni er ég því einhverskonar blanda af Skaftfellingi og Vestfirðingi.

Eftir stúdentspróf vann ég á leikskóla og Þjóðminjasafni Íslands við safnkennslu og ýmsa skráningarvinnu. Þá dvöldum við Kristinn sumarlangt í Kaupmannahöfn þar sem ég vann við hótelþrif, en hann við síldarverkun og garðyrkju. Áður en ég fór til Edinborgar vann ég svo á skóladagheimili og á Örnefnastofnun við það að tölvusetja örnefnaskrár, svara fyrirspurnum og aðstoða gesti sem þangað komu. Tvö sumur var ég leiðsögumaður á Árbæjarsafni og kokkur í rútuferð um landið með 20 manna þýskan túristahóp. Sumarið 2000 fékk ég nýsköpunarsjóðsstyrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til þess að safna efni úr hljóðbandasafni Árnastofnunar og gefa út bókina „Einu sinni átti ég gott“ sem er samansafn af gömlum rímum og þulum fyrir börn. Eftir að
mastersnáminu lauk hef ég starfað við ýmis verkefni: sjálfstæðar rannsóknir, háskólakennslu og síðast sem verkefnastjóri hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands áður en ég byrjaði hjá Þjóðfræðistofu.

Af hverju býð ég mig fram

En nóg um nám og vinnu – og aðeins um það af hverju ég býð mig fram. Ég flutti hingað á Strandir fyrir um 2 árum síðan, frá Reykjavík, og í stuttu máli kann ég afar vel við mig. Ég hef ekki verið sérstaklega virk í pólitísku starfi áður en ég hef alltaf haft mikinn áhuga á umhverfi mínu og trúi því að hver einstaklingur geti haft jákvæð áhrif á sitt samfélag með margvíslegum hætti. Að taka þátt í sveitastjórnarmálum er ein leið til þess. Hún er ekkert endilega sú skemmtilegasta en hún getur verið öflug.

Ég hef áhuga á því að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu hér. Á síðustu árum hefur sveitarfélagið gert marga góða hluti og þetta litla samfélag hefur í raun alla burði til þess að verða
afburðagott. Eins og áður sagði er ég nýbúi á landsbyggðinni, hef áður aðeins búið í Reykjavík og svo í Edinborg á námsárum mínum. Mín sýn á samfélagið er því fersk, einsog sagt er, og ég tel mig geta komið auga á leiðir og möguleika sem kannski eru ekki endilega hefðbundar eða bundnar við þrönga hagsmuni.

Flest stefnum við held ég að því sama í tengslum við uppbyggingu hér, en það er einfaldlega: fantagóð grunnþjónusta, fjölbreytt atvinnvinnulíf og frábært menningarlíf – að ógleymdri undursamlegri
umhverfisfegurð. Þessar grunnstoðir vil ég sjá enn betri hér og ég hef fulla trú á því að Strandir geti í nánustu framtíð orðið eitt af eftirsóttustu svæðum landsins, til bæði lengri og styttri dvalar. Við sem hér búum vitum þetta og stundum langar manni bara til að varðveita leyndarmálið en það getur víst ekki gengið til lengdar.

Á næstu árum þurfum við að vinna ötullega að því að koma svæðinu á kortið, einsog sagt er. Í því efni skiptir jákvæð og öflug ímynd auðvitað miklu máli en fyrst og fremst þarf þó að huga vel að samfélagslegri uppbyggingu – og treysti ég þeim góða hópi sem skipa V-listann mjög vel til þess.

Beinum athyglinni að því sem máli skiptir

Nú þegar íslensk stjórnmál sveiflast allt frá ömurlegri ládeyðu yfir í grátbroslegan farsa finnst mér mikilvægt að missa ekki sjónar af því sem máli skiptir. Það er fyrst og fremst tvennt: Hvert stefnum við? Og hvaða skref ætlum við að taka til þess að komast þangað? Í því sambandi skiptir samfélagsleg ábyrgð hvers og eins gríðarlegu máli. Um langt skeið hefur íslenskt samfélag nefnilega einkennst af doða. Margir flutu, ýmist hálfsofandi eða steinsofandi, að feigðarósi og vöknuðu svo upp við vondan draum. Sú hugmyndafræði sem byggðist á öfgakenndri frjáls- og markaðshyggju leiddi til þess að grunnstoðir tóku að fúna og eftir hrun hafa margir þurft að berjast við vonleysi og uppgjöf en nú er farið að vora og íslensk sumarblíða er alveg á næsta leyti.

Það er full ástæða til bjartsýni, því þegar gott fólk tekur höndum saman geta góðir hlutir gerst. Þess vegna finnst mér ástæða til að fagna nýju framboði V-listans á Ströndum. Á þessum lista eru 10 manneskjur af öllum stærðum og gerðum: karlar og konur, bændur, þjóðfræðingur, framkvæmdastjóri, tónlistarmaður, rekstrarstjóri, leikskólakennarar, vélstjóri og menningarfulltrúi. Þetta fólk hefur einlægan áhuga á því að láta gott af sér leiða í smáu sem stóru. Ég er ánægð með að fá að vera með í þeim góða hópi og hlakka til að taka með þeim þátt í baráttunni sem framundan er.

Katla Kjartansdóttir þjóðfræðingur,
skipar 2. sæti V-listans í Strandabyggð