22/12/2024

Bændur nú er komið að okkur

Aðsend grein: Jóhanna Pálmadóttir
Merkilegur fundur var haldinn að Staðarflöt um daginn og fjallaði hann um landbúnaðarmál. Flögraði það að manni nokkrum sinnum að frambjóðendur er þarna voru mættir hefðu hreinlega ekki unnið heimavinnuna sína. Þarna var þó ein  skýr undantekning, Einar Oddur Kristjánsson. Hann hefur verið einn öflugasti talsmaður landbúnaðarins á Alþingi undanfarin ár. Hvergi hefur hann hnikað og hvergi hefur hann brugðist okkur bændum. Hans bjargfasta trú að landbúnaður sé órjúfanlegur hluti íslenska efnahagslífsins er algjörlega nýtt sjónarmið miðað við það sem aðrir frambjóðendur og aðrir flokkar en Sjálfstæðisflokkurinn halda fram.

Á hinn bóginn er t.d. borðleggjandi að kæmi stefna Samfylkingarinnar til framkvæmda yrði hrun í landbúnaðarkerfinu sem síðan bitnaði á þjóðinni allri. Fullyrða má að störf bænda og afleidd störf af landbúnaði séu talsvert á öðrum tug þúsunda.

Það munar um minna að fá þann fjölda inn á vinnumarkað höfuðborgarsvæðisins og  þó ekki sé talað um vanda er skapast hjá félagsþjónustunni og vegna húsnæðisleysis. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir kynnti síðlastliðið haust þá stefnu Samfylkingarinnar að afnema alla tolla af innfluttum landbúnaðarvörum á tveimur árum. Síðan átti að stokka upp styrkjakerfið, að vísu við samráði við bændur.  Þeir sem eitthvað hafa kynnt sér umhverfi landbúnaðar sáu það strax að þetta væri dauðadómur yfir stéttinni. Viti menn Samfylkingarmenn sáu ljósið, að minnsta kosti sumir og hafa lagað stefnu sína í átt að stefnu Sjálfstæðisflokksins í landbúnaðarmálum. Sem sagt að ekki eigi að afnema tolla nema að kröfu WTO og í samráði við bændur. Þetta boða að a.m.k. tveir frambjóðendur Samfylkingarinnar, Anna Kristín Gunnarsdóttir og Björgvin Sigurðsson, en ég finn það ekki enn í stefnuskrá flokksins.

Á fyrrnefndum fundi í Staðarflöt viðurkenndi frambjóðandi Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi Anna Kristín Gunnarsdóttir að í tillögugerð Samfylkingarinnar í tollamálum hefðu orðið ákveðin mistök, gerð í “FLUMBRUGANGI” en á landsfundi þeirra hefðu þeir lagað stefnuna. Þetta voru hennar eigin orð. Þrátt fyrir að alltaf sé gott að fólk viðurkenni mistök sín, þá spyr ég mig sem bóndi af hverju landbúnaðarmálin lentu í einhverjum “flumbrugangi” hjá Samfylkingunni? Er málefnið ekki svo mikils metið þar á bæ að það taki því að setja sig inn í það? Og nú spyr ég mig sem kjósandi: Eru fleiri mál sem þyrftu endurskoðunar við í stefnu Samfylkingarinnar? Leynist “flumbrugangur” víðar í stefnu flokksins? Er ekki þarna lýsandi dæmi um trúverðugleika þessa flokks sem stendur ekki með sjálfum sér í lok kosningabaráttunnar.

Síðla veturs létu Bændasamtök Íslands gera skoðanakönnun á landsvísu um stuðning landsmanna við landbúnað. 93,8% sögðu að það skipti máli að landbúnaður væri stundaður á Íslandi í framtíðinni. Miðað við þær upplýsingar ætti mikill fjöldi kjósenda vara sig á að kjósa flokka sem ekki standa með landbúnaðinum.

Bændur nú er komið að okkur. Sjálfstæðisflokkurinn stendur með bændum í orði og verki. Það er meir ein aðrir flokkar gera.

Jóhanna E. Pálmadóttir
sauðfjárbóndi á Akri og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi