22/12/2024

Álagabletturinn Bolli á Brunngili

Bolli álagablettur Brunngil Bitra

Víða um land eru þekktir álagablettir í landslaginu sem margvísleg þjóðtrú er tengd. Sögur eru sagðar af bannhelgi sem fylgir þessum stöðum, ekki mátti raska þeim, vera þar með ólæti eða grjótkast og oft mátti ekki slá á þeim grasið. Þjóðtrú og þjóðsagnamyndun fylgir þessum stöðum og sögur sagðar um óhöpp sem bændur og búalið verða fyrir ef þeir brjóta gegn bannhelginni. Býsna nákvæmar lýsingar eru til dæmis varðveittar af þeirri varúð sem menn sýndu við álagablettinn Bolla á Brunngili í Bitrufirði. Þar var bannað að slá og rista torf. Ekki mátti vera með háreysti og læti við blettinn og ekki mátti safna þar berjum, bara tína upp í sig. Beita mátti kúnum þar á sunnudögum, en ekki aðra daga.

Á sýningunni Álagablettir sem hefur verið uppi á Sauðfjársetrinu í Sævangi og verður áfram árið 2016, er fjallað um fjölmarga álagabletti á Ströndum, þar á meðal Bolla. Á myndinni frá Brunngili sem er á sýningunni sést álfabyggðin Bollholt vel, framan við gilið. Þar fyrir ofan holtið er álagabletturinn Bolli, grasi vaxinn blettur. Á sýningunni er líka að finna hljóðskrár sem tengjast álagablettum þar sem Strandamenn segja frá álagablettum sem þeir þekkja sögur af. Þessar skrár eru úr Segulbandasafni Stofnunar Árna Magnússsonar og hefur Tónlistarsafn Íslands nú miðlað þeim á vefnum ismus.is. Hér má heyra Guðnýju Gísladóttur frá Brunngili (1906-1993) segja frá álagablettinum Bolla.