30/10/2024

Að velja réttu leiðina

Grein eftir Ingibjörgu Benediktsdóttir
Þann 29. maí færð þú, kjósandi góður, tækifæri til þess að kjósa fólk sem þú treystir best til þess að stjórna sveitarfélaginu Strandabyggð á næsta kjörtímabili. Hér eru tveir listar í framboði og hvorugur þeirra er grínframboð! Á undanförnum árum hefur markvisst verið unnið að því að gera sveitarfélagið Strandabyggð stöndugt. Það hefur verið gert með ábyrgri fjármálastjórn og án fífldirfsku og mikilmennsku sem hefði getað kostað sveitarfélagið margra ára erfiðleika vegna uppsafnaðra skulda. Það er góð staða fyrir Strandabyggð að geta einbeitt sér að raunverulegum verkefnum í stað þess að vera að eyða kröftum í mikinn skuldavanda. Núna höfum við tækifæri til þess að leita á mið sem önnur sveitarfélög hafa kannski ekki færi á.

Á síðasta kjörtímabili hefur margt áunnist í sveitarfélaginu s.s. bætt aðstaða fyrir ferðamenn, byrjað á endurbótum á skóla og leikskólalóð, ný flotbryggja. Undirbúningur nýrra gatna á Hólmavík eru á lokastigi og hafin hefur verið flokkun á sorpi í sveitarfélaginu. Eins hefur sveitarfélagið staðið fyrir endurbótum á Höfðagötu 3 sem hýsir ýmsa starfsemi s.s. námsver, Náttúrustofu Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Atvest, Strandagaldur,  Þjóðtrúarstofu og skrifstofu menningarfulltrúa Vestfjarða.

Margt er líkt með listunum tveimur sem núna bjóða sig fram til sveitarstjórnarkosninga. Það er reyndar ekkert athugavert við það og í raun eðlilegt. Við trúum því að allir sem fara í framboð hafa það að markmiði að vinna vel fyrir sveitarfélagið og hafa hug á umbótum sem gagnast gæti íbúum á svæðinu.

J-listinn hefur að skipa fólki sem hefur mismunandi bakgrunn og menntun. Þarna er á ferð hópur fólks sem er vinnusamur og ber hag íbúa Strandabyggðar fyrir brjósti. Sumir hafa unnið að sveitarstjórnarmálum áður og verið m.a. í meirihlutasamstarfi í sveitarstjórn. Aðrir eru nýir á vettvangi sveitarstjórnarmála og koma inn með nýjar áherslur.

Valið stendur sem sagt á milli tveggja flokka. Annars vegar er það flokkur Vinstri grænna. Hins vegar er það J-listinn sem er opinn lýðræðislegur hópur sem hlustar á skoðanir fólksins óháð hvaða stefnu menn hafa í pólitík.

Þitt er valið, kjósandi góður, hvort þú vilt kjósa hreinan vinstri flokk eða breiða og samstillta fylkingu sem vinnur fyrir þinn hag.

Ég skora því á þig að setja X við J þann 29. maí og tryggja þannig áframhaldandi velferð í Strandabyggð.

Ingibjörg Benediktsdóttir