30/10/2024

Yfirlit yfir veðrið í desember frá Veðurstöðinni í Litlu-Ávík

Að venju birtum við yfirlit yfir veðrið í liðnum mánuði frá veðurstöðinni í Litlu Ávík í Árneshreppi, eftir Jón G. Guðjónsson veðurathuganarmann. Mest voru suðlægar vindáttir í mánuðinum, oft hvassviðri eða stormur, aðallega fyrir og um jólin, þannig að flugsamgöngur á Vestfjörðum fóru víða úr skorðum. Samt komu nokkrir hægviðrisdagar fyrr í mánuðinum. Nokkra spilliblota gerði, það er að hlýnaði snöggt en kólnaði og frysti strax aftur og gerði gífurlega hálku á vegum fyrir ökutæki og eins fyrir gangandi vegfarendur.

Vindur náði í kviðum 36 m/s (eða12 vindstigum gömlum) þann 23. desember á Þorláksmessu um hádegi nokkrum sinnum. Einnig aðfaranótt aðfangadags á milli kl. 2 og 4 og náði vindur þá 37-38 m/s. Ennfremur oft á Jóladag 25. desember, þá í 36 m/s.

Yfirlit eftir dögum:

1.: Norðan stinningskaldi, síðan kaldi, snjóél, frost 0 til 4 stig.
2.-3.: Suðaustan eða austan, þurrt í veðri, frost frá -6 stigum uppí +1 stigs hita.
4.: Norðan og NA, allhvass, síðan stinningsgola, slydduél, hiti 0 til 2 stig.
5.-7.: Suðlægar vindáttir, mest SV, kul í fyrstu, síðan kaldi og stinningskaldi, snjóél, svo skúrir, hiti frá 5 stiga hita niðrí 3 stiga frost.
8: Vestan kul, síðan stinningskaldi, snjókoma um morguninn, skafrenningur, frost 1 til 4 stig.
9.: Austan gola, úrkomulaust, hiti 0 niðrí 1 stigs frost.
10.: Suðvestan gola, síðan SA, gola með rigningu en hvassviðri seint um kvöldið, hiti 3 til 8 stig.
11.: Suðvestan hvassviðri fram á hádegi með snjóéljum, síðan SA stinningsgola en allhvass um kvöldið, hiti frá 10 stigum niðrí 1 stig.
12.-14.: Suðlægar vindáttir, kul eða gola, þurrt í veðri, hiti í fyrstu frá 1 stigi niðrí 5 stiga frost.
15.: Austan kaldi í fyrstu, síðan SA andvari með snjókomu, hiti -1,4 til +2 stig.
16.-19.: Suðlægar eða breytilegar vindáttir, stinningskaldi þann 16., annars yfirleitt gola, él, hiti -5 til +2 stig.
20.-22.: Norðaustan og austan stinningsgola, kaldi, en allhvass þann 22. um kvöldið, snjóél, snjókoma síðan rigning, hiti – 2 stig til +4 stig.
23.-26.: Suðvestan hvassviðri eða stormur, en allhvass og síðan gola á annan í jólum, skúrir eða él, hiti +10 stig niðrí -1 stig.
27.-29.: Sunnan og síðan SV allhvass eða hvassviðri þann 27. annars stinningskaldi, smá skúrir, hiti 0 stigum uppí 9 stig.
30.-31.: Norðan og NA kaldi þann 30 frostrigning síðan él, gola, síðan andvari og logn á gamlárskvöld, lítilsháttar snjókoma um kvöldið, hiti +2 stig niðrí – 4 stig.

Úrkoman mældist 78,6 mm (í desember 2007 var úrkoman 116 mm).
Úrkomulausir dagar voru 8.
Mestur hiti var þann 11. desember eða 10,1 stig.
Mest frost var þann 2. desember eða – 6.2 stig.
Jörð var alhvít í 15 daga, flekkótt í 11 daga og auð í 5 daga.
Mesta snjódýpt mældist dagana 21. og 22. desember eða 15 cm.
Meðalhiti við jörð var -2.3 stig (í desember 2007 var meðalhiti við jörð -2,16 stig.)
Sjóveður var mjög rysjótt í mánuðinum.

Tekið saman af Jón G Guðjónssyni veðurathugunarmanni í Litlu-Ávík.