22/12/2024

Vorhreingerning á vefnum

Eitt af verkefnum Upplýsingamiðstöðvar ferðamála á Hólmavík er að halda úti yfirliti um ferðaþjóna á Ströndum á vef miðstöðvarinnar á slóðinni www.holmavik.is/info. Nú í dag og næstu daga stendur yfir árleg vorhreingerning á vefnum og eru þeir sem hagsmuna eiga að gæta beðnir um að skoða upplýsingar um sín fyrirtæki vandlega á þessari slóð og senda leiðréttingar og upplýsingar á netfangið info@holmavik.is. Eins eru menn beðnir að láta vita ef starfsemi er hætt eða ný að byrja.

Að sögn Jóns Jónssonar þjóðfræðings sem hefur umsjón með vef Upplýsingamiðstöðvarinnar er ferðaþjónusta á Ströndum alltaf að eflast. Segir hann að atvinnugreinin sé líklega mun umfangsmeiri en marga gesti og jafnvel heimamenn grunar: "Í Bæjarhreppi, Strandabyggð, Kaldrananeshreppi og Árneshreppi eru nú 15 gististaðir og 7 tjaldsvæði og munar um minna í atvinnulífi í héraðinu. Þá eru starfandi 7 veitingastaðir og kaffistofur yfir sumarið, á 4 stöðum á Ströndum er selt í sund og á 5 stöðum inn á söfn og sýningar. Matvöruverslanir eru á 3 stöðum, 2 fyrirtæki eru með siglingar og sjóstangaveiði, 1 kajakaleiga, 1 reiðhjólaleiga og 1 fyrirtæki með hestaferðir. Þá eru ónefndar handverks- og minjagripabúðir sem eru að minnsta kosti á 5 stöðum, 4 bensínafgreiðslur, 3 bíla- og dekkjaverkstæði, 2 fyrirtæki eru með áætlunarferðir með rútu og fleira er örugglega ónefnt."