27/12/2024

Vörður hlaðnar á Steingrímsfjarðarheiði árið 1899

Halldór Jónsson frá Tind í Miðdal (1871-1912), síðar bóndi í Miðdalsgröf, er vel þekktur vegna skrifa Sigurðar Gylfa Magnússonar sagnfræðings sem gaf út tvær bækur nálægt aldamótum þar sem byggt var á dagbókum hans og fleiri skrifum Halldórs og Níelsar bróður hans á Grænhóli á Gjögri. Þessar bækur heita Bræður af Ströndum og Menntun, ást og sorg. Margvíslegan fróðleik er að finna í handritum Halldórs sem varðveitt eru á Handritadeild Landsbókasafnsins og aðeins brot af því er birt í bókum Sigurðar Gylfa.

Árið 1899 var Halldór að hlaða vörður á Steingrímsfjarðarheiði, en hann og Ísleifur bróðir hans og fleiri hafa þá verið ráðnir í það verkefni að hlaða og lagfæra vörður á heiðinni. Halldór var góður hleðslumaður og þeir hafa ekki slegið slöku við verkið. Sæluhúsið var þá ekki komið á Sótavörðuhæðinni, en líklega hefur það verið reist 1923, svo þeir lágu í tjaldi. Hér á eftir eru brot úr dagbókarfærslum Halldórs þessa daga sem verkið stóð, en fram kemur í dagbókinni á öðrum stað að hann hafi skrifað færslurnar á miða og fært þær svo inn í bókina þegar hann kom heim. Kirkjubólið sem kemur við sögu er Kirkjuból í Staðardal:

10. júlí – Í dag fór jeg með Leifa br[óður] og Jónatan vestur á Steingrímsfjarðarheiði til að hlaða þar vörður. Sveinn á Kirkjubóli fór með okkur, tjölduðum við norðari ána komum þar kl. 9 ½. Jeg keypti 2 [fjórðunga] smjör á Hrófbergi …

11. júlí – Í dag hlóðum við 43 vörður að mestu frá grunni flestar, var það á bilinu frá Flókatungu vestur að Þrívörðu. Á því bili eru nú 68 vörður alls. Bergsveinn á Kirkjubóli kom í morgun og vann með okkur í dag.

12. júlí – Í dag færðum við tjaldið og allt dót með okkur vestur hjá Sótavörðuhæð og tjölduðum þar. Hlóðum í dag upp 17 vörður og að auki 8 nýjar á stykki þar sem breyta á veginum.

13. júlí – Í dag hlóðum við 18 vörður að nýju og 2 upphlaðnar gamlar, 2 vörður nýjar urðum við að rífa aptur og færa, af því stefnan hafði skekkst nokkuð á þeim. Sveinn fór heim eptir nón. –

14. júlí – Í dag höfum við hlaðið upp 27 vörður og svo rifum við niður vörðurnar á bugnum sem tekinn var af (21 varða). Bergsveinn fór heim eptir hestum á meðan við rifum vörðurnar, kom aptur kl. 3 í nótt. Alls eru á heiðinni 154 vörður brúna á milli, þar af 109 nýhlaðnar að meira og minna leyti (20 nýjar).

15. júlí – Í nótt fórum við af stað kl. 3. Komum að Kirkjubóli um fótaferðartíma, stóðum þar dálitið við og hjeldum svo beina leið heim. Var þá kl. 2. Síðan hef jeg lengst af sofið.“