22/12/2024

Vonarholtsvegur og fleiri vegir

MatthíasAðsend grein: Matthías Lýðsson.
Mig langar hér til að skýra skoðanir mínar vegna vegalagningar um Arnkötludal og Gautsdal, sem hér verður nefndur Vonarholtsvegur.  Ekki verður komist hjá að fara fáum orðum um forsögu málsins, forsendur vegalagningarinnar, kosti og galla.

Fyrst eru hér örfá orð um vegi og hvert er hlutvert þeirra. Vegir eru ekki lagðir til að verktakar hafi af þeim tekjur.  Þeir eru heldur ekki dýrmæti fyrir starfsmenn Vegagerðarinnar. Þeir eru fyrst og fremst lagðir fyrir fólk til að komast leiðar sinnar, hverra erinda sem vera skal.

Viðhorf vegfarenda til hlutverks vega er misjafnt. Flestir vilja þó vafalaust komast sem fljótast milli staða og koma heilir heim. Það er hins vegar grundvallar munur á milli þarfa þeirra sem nota vegina eingöngu til að komast á milli staða sem fjarri eru og hinna sem við vegina búa. Búseta og atvinnulíf er háð góðum samgöngum. Vegirnir eru nýttir til aðflutnings vöru og til að koma frá sér afurðum. Íbúar þurfa líka dags daglega að fara um vegi til að sækja skóla, fara í verslun, stunda vinnu, sækja menningarviðburði o.s.frv.  Íbúarnir eiga búsetu sína og afkomu að miklu leyti komna undir góðum vegum og góðri vegaþjónustu. Ég vona að sem flestir geti sæst á þetta viðhorf mitt til vega og þarfa fyrir góðar samgöngur.

Á fjórðungsþingi Vestfirðinga 1997 var samþykkt vegaáætlun fyrir Vestfirði. Þar var fjallað um flesta vegi á Vestfjörðum og þar var lagt til að tengja Steingrímsfjörð og Reykhólasveit með Vonarholtsvegi. Eitt af markmiðum þeirrar tillögu var og er að stytta akstursleiðir milli norðanverðra Vestfjarða og höfuðborgarsvæðisins. En það var svo sérstaklega tekið fram í nefndri vegaáætlun að hætta skyldi að veita fé til uppbyggingar vegarins frá Hólmavík að Brú. Það var eini vegurinn í þeirri áætlun sem fjórðungsþingið samþykkti að hætta skyldi að byggja upp. Þegar að þetta gerðist voru farnar af stað sameiningarviðræður milli sveitarfélaga í Strandasýslu. Þegar að það fréttist að Hólmavíkingar hefðu samþykkt þessa vegaáætlun var þeim viðræðum slitið. Reyndar að því að mér var sagt með hurðaskellum.

Síðan þetta var veit ég ekki til að afstaða Fjórðungsambandsins né heldur Hólmvíkinga hafi breyst. Sama afstaða kemur fram í röksemdum Leiðar ehf. fyrir Vonarholtvegi og meira að segja vill svo til að hér á borðinu hjá mér minnisblað Gísla Eiríkssonar frá 2002 en þar er beinlínis sagt að verði þessi leið valin, sem Gísli kallar reyndar Tröllatunguveg, þá verði að hætta við uppbyggingu á veginum Hólmavík – Brú og þjónusta við þann veg minnkuð.

Nú er mér fullljóst að eftirspurn eftir vegabótum er miklu mun meiri en hægt er að anna með þeim peningum sem tiltækir eru hverju sinni. Þess vegna verður alltaf að forgangsraða framkvæmdum. En það sem lýst er hér að framan snýst ekki um forgangsröðun, heldur að komi Vonarholtvegur, fái vegfarendur um veginn Hólmavík – Brú, ekkert. Það er ekki verið að tala um að fresta framkvæmdum heldur hætta þeim alveg. Meira að segja arðsemis og hagkvæmni útreikningar fyrir Vonarholtsveg  byggjast að nokkru leyti á þessum forsendum.

Þetta er eftir því sem ég best veit dæmalaus og vægt til orða tekið óréttlát afstaða til þarfa nágranna sinna og annarra vegfarenda.

Þrátt fyrir þessa samþykkt Fjórðungssambandsins frá 1997 hefur verið unnið að uppbyggingu vegarins suður Strandir. Það varð að endurbyggja vegarkafla, sem ekki var hægt að laga lengur. En stefnan virðist óbreytt.

Kostir Vonarholtvegar eru að með því að með að tengja saman Strandir og Reykhólasveit með heilsárvegi er lagður grunnur að því að gera miðhluta Strandasýslu og Norður Breiðafjörð að atvinnu, félags og menningarheild. Þar ætti að vera hægt fyrir íbúa að stunda sína vinnu hvoru megin sem vera skal og önnur samskipti verða ekki lengur árstíðabundin. Það er of langt mál upp að telja hverju þetta gæti breytt, enda hafa því verið gerð skil annars staðar. Þó má t.d. benda á að það yrði hér um bil jafnlangt úr Saurbænum hvort sem farið er til Hólmavíkur eða Búðardals.

Annar meginkostur Vonarholtvegar er sá að miðað við núverandi vegakerfi styttir hann aksturleiðir milli höfðuðborgarsvæðisins og Ísafjarðarsvæðisins og Strandir norðan vegar. Áhrif Vonarholtsvegarins á atvinnulíf og þjónustu, þar með talda ferðaþjónustu er erfitt að meta. Væntanlega yrði hún sumstaðar góð og annars staðar slæm.

Eflaust muna einhverjir eftir því að það varð fréttamatur þegar þáverandi hreppsnefnd Kirkjubólshrepps heitins hafnaði þátttöku í hlutafélagi um lagningu Vonarholtsvegar í einkaframkvæmd. Sá er þetta ritar sat í þeirri hreppnefnd og er enn sömu skoðunar. Sem sé, að það sé fráleitt að jafn sjálfsagðar samgöngubætur og lagning Vonarholtvegar, séu ekki kostaðar úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og að við sem búum við væntanlegan veg höfum ekkert það til saka unnið að þurfa að greiða veggjöld, árum eða áratugum saman.

Og ég er enn þeirrar skoðunar að skýrslan sem Leið ehf. sendi hreppsnefnd Kirkjubólshrepps og átti að sannfæra okkur um ágæti Vonarholtsvegar hafi falið í sér byggðafjandsamlegt viðhorf. Þar kom fram sama viðhorf og heyrist enn í ræðu og riti, að höfuðmarkmiðið sé að stytta leiðina til Reykjavíkur. Ég lít hins vegar svo á að markmiðið hljóti að vera að stytta og bæta leiðina heim. Þetta er ekki bara orðaleikur, heldur koma fram í mismunandi framsetningu, gjörólík viðhorf.

Veikleikar hinnar áráttukenndar ofsatrúar á Vonarholtsveg eru nokkrir. Hér verður leitast við að benda á nokkra þeirra. Ég mun leiða hjá mér umfjöllun um umhverfisáhrif, enda á vonandi eftir að gera því góð skil í væntanlegri matsskýrslu.

Fyrst er til þess að líta að Vonarholtvegur verður fjallvegur fjarri sjó. Og ekki nóg með það heldur fara þeir sem velja þessa leið til og frá höfuðborgarsvæðinu líka Svínadal, Bröttubrekku eða Heydal. Það væri forvitnilegt að hitta þá flutningabílstjóra sem myndu taka Bröttubrekku fram yfir Holtavörðuheiði í vetrarfærð. Væri ég á ferð að vetrarlagi í hefðbundinni norðaustanátt, yrði valið að aka um Strandir til Hólmavíkur.

Veðurlag á vegstæði Vonarholtsvegar er þannig að það eru nánast tvær vindáttir. Norðaustan og suðvestan langs eftir dölunum og hvass þegar blæs af fjallinu. Þær vindmælingar sem eru til frá þessum stað sýna glöggt að sé veðurhæð borin saman við Steingrímsfjarðarheiði og Ennisháls er undan tekningalítið umtalsmeiri veðurhæð á Vonarholtsvegi.

Vonarholtsvegur kemur ekki til með að nýtast þeim mikið sem eru á leið austur. Nú er þónokkuð um að skólafólk sæki nám víða á Norðurlandi. Leiðin heim hjá þeim lengist um 17 km við að fara Laxardalsheiði og Vonarholtsveg. (Frá Brú til Hólmavíkur eru 115 km en frá Brú um Laxardalsheiði og Tröllatunguheiði eru 132 km).

Fyrr í þessari grein var rætt um að tilreiknuð arðsemi og minni slysatíðni vegna Vonarholtsvegar væri að hluta tilkomin vegna þess að ekki yrði haldið áfram uppbyggingu vegarins Brú-Hólmavík. Til að rétta þær niðurstöður verður auðvitað að bera saman hvað myndi breytast með samskonar uppbyggingu á Djúpvegi um Strandir.

Þá er komið að því sem veldur mér mestum áhyggjum. Nú er verið að vinna að endurskoðun á Samgönguáætlun. Hún verður væntanlega tekin til umræðu á Alþingi í mars. Við vonum að þar verði tekin ákvörðun um Vonarholtsveg. Það er bjartsýni að ætla að hann verði opnaður fyrir umferð eftir 4 ár. Eigum við að búa við það á meðan, íbúar og aðrir vegfarendur, að ekkert verði gert á meðan í Djúpvegi frá Brú til Hólmavíkur?

Núverandi vegur er ekki byggður fyrir þá þungaumferð sem á honum er. Að undanförnu hefur maður orðið vitna að því að hið svokallaða bundna slitlag veðst upp og tætist af veginum. Þungatakmarkanir eru iðulega settar ef eitthvað hlánar yfir veturinn, og getur það aukið flutningskostnað mikið og þar með kostnað fyrirtækja og vöruverð. Tvisvar í vetur hef ég beðið í lest flutningabíla eftir að þeir sem á móti komu í norðanverðum Bitrufirðinum eftir einbreiða veginum. Þar geta ekki stórir bílar mæst svo kílómetrum skiptir og víðast á því hænsnapriki er burðar- og slitlag handónýtt. Víða á veginum eru enn sömu slysagildrurnar og voru fyrir 25 árum. Þar sem malarslitlag eru að hausti og vetri eru víða drulluholustykki og það er ekki óalgengt að ökumenn eyðileggi dekk þegar þeir lenda í holum við steyptar brýr. Á þessum sömu malarköflum rýkur svo slitlagið út í veður og vind á nokkrum vikum, þegar mesta umferðin er á sumrin.

Svona gæti ég haldið áfram. Þetta er ekki skrifað til að ásaka einn eða neinn heldur til að lýsa ástandi sem er og ef ekki fást nú verulegir fjármunir núna til endurbyggar og viðhalds mun ástandið fara ört versnandi á næstu árum.

Það er nefnilega þessi vegur sem þarf að bera almenna og þungaumferð til og frá norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum næstu árin og hann kemur í fyrirsjáanlegri framtíð til með að nýtast fyrir alla umferð norðu og austur og bera ( vonandi) meiri ferðamannastraum eftir því sem fram líða stundir.

Það er ekki bara óréttlát afstaða að halda að Vonarholtsvegur leysi allan samgönguvanda Strandamanna heldur er hún líka heimskuleg og skammsýn.

Matthías Lýðsson, Húsavík