22/11/2024

Villandi vegmerkingar til Ísafjarðar og Hólmavíkur

Fyrir nokkru birti vefurinn strandir.saudfjarsetur.is nokkrar myndir af villandi vegaskiltum á Ströndum, sem enn átti eftir að skipta um eftir að vegurinn um Arnkötludal opnaðist í haust. Er skemmst frá að segja að mjög snarlega var öllum þeim skiltum skipt út, að einu frátöldu sem er við Búðardal. Þar er ferðalöngum sem koma norður Vestfjarðaveg og ætla til Hólmavíkur (eða lengra norður og vestur) eindregið bent á að fara Laxárdalsheiði. Í Norðurárdal í Borgarfirði, við vegamótin inn á Vestfjarðaveg, er annað slíkt skilti. Þar er þeim sem ætla til Ísafjarðar bent eindregið á að halda áfram sem leið liggur norður í land og fara um Holtavörðuheiði.  

Það er ekki allt. Auk þess bendir skiltið í Norðurárdal vegfarendum á að það eigi að beygja inn á þjóðveg nr. 61 frá hringveginum einhvers staðar framundan ætli þeir til Ísafjarðar. Þann veg er ekki lengur hægt að nálgast frá þjóðvegi nr. 1  þar sem vegurinn um Hrútafjörð fékk nýtt vegnúmer þegar nýr vegur um Arnkötludal opnaði s.l. haust og er nr. 68.

Vissulega er fagurt útsýni og skemmtilegt að ferðast um sunnanverðar Strandir, en líklegt er þó að þeir sem fara um ókunnar slóðir og eru að drífa sig milli tveggja staða vilji helst fá upplýsingar um stystu færu leið. Þetta hefur breyst með Arnkötludalnum og því væri mikilvægt að þessum skiltum væri skipt út eða alla vega bent á að hin leiðin liggi líka á Ísafjörð og Hólmavík.

Vefurinn strandir.saudfjarsetur.is heitir á Vegagerðina að vera nú búin að kippa þessu í liðinn, í síðasta lagi fyrir hina stórglæsilegu tónlistarhátíð Aldrei fór ég suður, sem haldin verður á Ísafirði um páskana. Þá eru margir á faraldsfæti, innlendir og erlendir ferðamenn.  

bottom

Villandi leiðbeiningar í Norðurárdal, við vegamótin upp á Bröttubrekku. Gamla húsið við veginn, sem var skólahús ef fréttaritari man rétt, er farið að láta mjög á sjá.  

vegamal/580-villandi-skilti1.jpg

Villandi leiðbeiningar rétt sunnan við Búðardal, við vegamótin á Laxárdalsheiði.