22/11/2024

Viðbúnaður á norðanverðum Vestfjörðum

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, í samráði við Veðurstofu Íslands lýsir yfir viðbúnaði á norðanverðum Vestfjörðum vegna snjóflóðahættu. Sérstaklega er verið að horfa til ástands snjóalaga á Ísafirði, Bolungarvík og við helstu umferðaræðar (Eyrarhlíð, Óshlíð, Kirkjubólshlíð og Súðavíkurhlíð). Íbúar Bolungarvíkur, Hnífsdals og Súðavíkurhrepps sem ekki eru komnir til síns heima, eru hvattir til að flýta heimför sinni vegna aukinnar hættu á snjóflóðum á vegi. Aðrir íbúar í fjórðungnum eru hvattir til þess að vera ekki á ferðinni milli bæja eftir kl. 17:00 nema brýna nauðsyn beri til og þá í samráði við lögreglu og Vegagerð. 

Gert er ráð fyrir að veðrið eigi eftir að versna mun meira en nú er og að vindur nái allt að 30 m/sek þegar verst lætur með mikilli úrkomu. Veðrið mun ná hámarki seint í kvöld en gert er ráð fyrir að því fari að slota um miðnætti í kvöld. Fólk er beðið að fylgjast vel með fréttatilkynningum um frekari framvindu mála.

Undir þessa tilkyningu ritar Kristín Völundardóttir lögreglustjóri Vestfjarða, fyrir hönd Almannavarnarnefnda Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkur og Veðurstofu Íslands.