22/12/2024

Veturinn er mættur

Eitthvað hefur sljákkað í óveðrinu sem ríkt hefur á Ströndum undanfarna daga, en þó er jörð alhvít og kuldinn farinn að bíta fast í kinnar. Það er ekki hægt að fela sig fyrir vetrinum lengur. Næsta sólarhringinn er gert ráð fyrir norðan 8-15 m/s og éljum, hvassast á annesjum. Frost verður á bilinu 6 til 12 stig. Langtímaspáin sem nær fram yfir næstu helgi spáir svipuðu veðri; nokkuð hvassri norðanátt með frosti og éljum. Samkvæmt vef Vegagerðarinnar er ófært norður í Árneshrepp, þungfært yfir Bjarnarfjarðarháls og hálka og hálkublettir um allar Strandir og á Steingrímsfjarðarheiði. Þá er einnig hált á Holtavörðuheiði.