22/12/2024

Vetrarhátíð: Veislumáltíð, Jón lærði, Brotið og One Bad Day

Heilmikil vetrarhátíð verður haldin hjá Strandagaldri og Restaurant Galdri helgina 17.-19. febrúar, trúbador, fræðimenn, heimildamynd og veislumáltíð. Það verður borðhald bæði föstudagskvöld og laugardagskvöld og má sjá matseðilinn hér að neðan. Trúbadorinn One Bad Day, hinn góðkunni Eyvindur Karlsson, heldur gestum á tánum með tónlistarsköpun sinni bæði kvöldin. Á laugardeginum kl. 15:00 mætir Viðar Hreinsson, en bók hans um Jóns lærða kom út fyrir jólin. Á sunnudeginum kl. 15:00 verður heimildamyndin Brotið sýnd, en í henni segir frá örlagaríkum degi á Dalvík þann 9. apríl 1963 þegar 16 sjómenn fórust í aftakaveðri úti fyrir Norðurlandi. Haukur Sigvaldason einn aðstandenda myndarinnar segir frá gerð hennar.

Ókeypis aðgangur er á viðburðina, en bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar og dvd-diskur með Brotinu verða til sölu. Takmarkað sætaframboð er á borðhaldið á föstudags- og laugardagskvöldi, því veislusalurinn er ekki ýkja stór. Pöntunarsími er 897-6525.

Matseðillinn á vetrarhátíð Strandagaldurs um konudagshelgina 17.-19. febrúar samanstendur af:
Forréttur: Humarsúpa
Aðalréttur: Grillað nautakjöt með salati, bernaise og bökuðum kartöflum
Eftirrréttur: Súkkulaðifrauð með karamellseruðum hnetum

Borðhald hefst kl. 19:00 bæði föstudags- og laugardagskvöld. Verð kr. 5.900.-.