Það var margt um manninn á Þrettándagleði í Galdragarðinum á Hólmavík í gær og eins sáust þar álfaprinsessur og tröll og jafnvel jólasveinn. Fróðleikur um þjóðtrú og þrettándann var fluttur og líka sungið og spilað og spjallað. Gleðskapur og gamanmál voru í hávegum höfð. Þeir sem ekki voru með skauta meðferðis dönsuðu á svellinu í staðinn og kakó og smákökur voru á boðstólum. Flugeldasýning björgunarsveitarinnar Dagrenningar á Hólmavík setti líka svip á gleðskapinn og jarðeldar og lofteldar lýstu upp himinn og jörð og sveipuðu Strandir ævintýraljóma.
Þrettándinn á Hólmavík – ljósm. Jón Jónsson