Þorrablótið á Hólmavík var haldið í gærkveldi og tókst afbragðsvel. Að venju sá átta kvenna skemmtinefnd um þorrablótið. Boðið var upp á þorrahlaðborð með fleytifullum trogum af dýrindis þorramat og og svo sýndi skemmtinefndin frumsamda revíu þar sem hent var gaman að fjölmörgum atburðum liðins árs, mönnum og málefnum. Tónlist, söngur, leikþættir blönduðust þar saman og hljóð og mynd voru fléttuð saman við. Fréttaritari strandir.saudfjarsetur.is tók myndir af skemmtiatriðunum, en þegar ballið með Rósu og riddurunum byrjaði lagði hann að venju myndavélina á hilluna og tók til við dansinn. Ljómandi vel heppnuð skemmtun, eins og sjá má af myndunum.